
Kúabændur gefa út fræðsluefni
01.09.2017
Landssamband kúabænda hefur hleypt af stokkunum fræðsluverkefni sem miðar að því að fræða fólk um feril mjólkurframleiðslu og starfsumhverfi kúabænda. Verkefnið ber heitið „Frá haga í maga” og hafa samtökin birt myndband á Facebook-síðu sinni sem sýnir feril mjólkurinnar allt frá kúnum úti í haga og á borð neytenda.
Að sögn Margrétar Gísladóttur, framkvæmdastjóra LK, er tilgangur verkefnisins að færa bændur og neytendur nær hver öðrum. „Áður fyrr voru tengsl milli þessara hópa mun nánari, flestir voru annað hvort úr sveit eða áttu ömmur og afa sem bjuggu í sveit og þekktu þar af leiðandi frekar matvælaframleiðslu af eigin raun. Með breyttri samfélagsgerð og nýjum kynslóðum hefur bilið milli uppruna matvælanna og neytenda breikkað og þekkingin breyst í takt við það. Með þessu verkefni erum við að freista þess að efla þessi tengsl að nýju. Um leið og við viljum kynna fólki starf kúabóndans lögðum við mikla áherslu á að allt efnið væri áhugavert bæði fyrir börn og fullorðna, svo kynslóðirnar gætu notið þess saman,” segir Margrét.
Meðal þess sem kemur fram í myndbandinu er að hér á landi eru um 26 þúsund mjólkurkýr og í hverri viku framleiða þær um 3 milljónir lítra af mjólk á 600 kúabúum víðs vegar um landið.
Auk myndbandsins hafa samtökin tekið saman fróðlegar upplýsingar um nautgriparækt á Íslandi og einnig útbúið litabók fyrir börn sem hægt er að prenta út að kostnaðarlausu af vefsíðu samtakanna naut.is.