Beint í efni

Kúabændur fá bætt gölluð einstaklingsmerki

12.05.2005

Undanfarna daga hafa verið hér á landi forsvarsmenn Os Husdyrmerker, sem sér m.a. um að framleiða öll einstaklingsmerki fyrir nautgripi hér á landi. Ástæða komu þeirra hingað til lands var að skoða galla í merkjum sem margir kúabændur hafa kvartað yfir, sem og að kynna ýmsar nýjungar. Á ferð sinni um landið voru nokkur kúabú heimsótt, m.a. þar sem vandi hefur verið með dökk merki.  

Wenche Wilkan Ligård, framkvæmdastjóri Os Husdyrmerker, sagði á fundi sem hún átti með framkvæmdastjóra LK og fleiri aðilum í dag að fyrirtækið væri að vinna að lausn þeirra vandamála sem komið hafi upp. Ástæða vandans sé nokkuð margþætt en bann við notkun ákveðinna efna í framleiðslu plastmerkjanna sjálfra hafi gert merkjafyrirtækjum erfitt fyrir, sérstaklega þar sem loftræsting í gripahúsum er takmörkuð.

 

Sagði hún að þetta vandamál hafi einnig komið upp í Svíþjóð og Noregi, jafnt á merkjum frá Os og merkjum frá öðrum framleiðendum sem framleiddu merki samkvæmt evrópskum stöðlum.

 

Þá gat hún þess sérstaklega að þegar viðunnandi lausn finnist, verði íslenskum kúabændum bætt gölluð merki með nýjum – þeim að sjálfsögðu að kostnaðarlausu. Jafnframt gat hún þess að hægt væri að endurpanta merki af gömlu gerðinni ef bændur óskuðu þess, en taldi þó það vart ráðlegt þar sem allar líkur eru á því að nýju merkin fari jafn illa og eldri merkin ef aðrar aðstæður hafi ekki breyst.