Beint í efni

Kúabændur á svæði Viking genetics fá vel greitt fyrir nautkálfana

18.06.2010

Viking Genetics, hin sam-norræna kynbótastöð nautgripa (Danmörk, Svíþjóð og Finnland), hefur nú komið fram með nýtt verðkerfi til greiðslu fyrir kynbótanaut. Er þetta gert til þess að hvetja kúabændur til þess að standa sig enn betur í framleiðslu afburðagripa. Verðkerfið er þannig uppbyggt að ákveði stöðin að kaupa kálf af bónda, fær hann

1.000 Dkr (um 20.000,-) í bætur fyrir blóðsýnatöku vegna heilbrigðisrannsóknar.

 

Fari svo að kálfurinn er tekinn á stöð fær bóndinn 10.000 Dkr (um 210.000,-) fyrir kálfinn auk þess sem greiddar eru 15 Dkr/dag (um 300 krónur) fyrir hvern dag sem bóndinn fóðrar kálfinn umfram fyrstu fjóra mánuðina (kálfar eru oftast teknir inn 6 mánaða).

 

Ef nautið fer í reynslunotkun (sæði úr óreyndu nauti) fær bóndinn aðrar 10.000 Dkr eða um 210.000,- til viðbótar.

 

Hver sem selur nautastöðinni kálf fær því að lágmarki um 450.000 krónur fyrir nautið, fari svo að það gefi sæði til notkunar.

 

Þegar og ef nautið verður svo notað, fær bóndinn aukalega 4% tekna af sölu á sæði úr viðkomandi nauti. Þessi þáttur getur skipt gríðarlega miklu máli, þar sem fyrirtækið selur sæði út um allan heim. Nái viðkomandi naut vinsældum, er því hér verið að tala um miklar fjárhæðir aukalega til bóndans.

 

Eins og íslenskir kúabændur þekkja, er þetta verulega frábrugðið því kerfi sem notað er hérlendis.