Beint í efni

Kúabændum tryggð aukin réttindi

25.08.2011

Þing Evrópusambandsins hefur nú til umfjöllunar tillögu sem mun gera kúabændum aðildarlandanna mögulegt, að standa saman gegn hinum einkareknu afurðastöðvum sem hafa margar hverjar til þessa haldið tekjum kúabænda niðri og naut.is fjallaði um í frétt í desember sl. Í hnotskurn hefur staðan verið þannig að hver bóndi hefur samið við sína afurðastöð um afurðaverð og samningsstaða viðkomandi bónda verið afar erfið. Með hinni nýju samþykkt mega bændurnir nú mynda framleiðslufélög sín á milli sem sjá um að semja við sjálfstæðar afurðastöðvar en til þessa hefur það verið ólöglegt! Með hinni nýju samþykkt er nú einnig löglegt að gera eins árs samninga um afurðaverð, sem var einnig bannað.
 
Vonir standa til þess að með þessari aðgerð verði hægt að tryggja kúabændum landa Evrópusambandsins hærra verðs fyrir mjólkina, sér í lagi þegar og ef verð í smásölu hækkar en til þessa hafa milliliðirnir hirt svotil allan ágóða af hækkunum. Þetta hefur að sjálfsögðu þó ekki verið raunin með framleiðendasamvinnufélög og munu hinar nýju reglur því ekki breyta neinu fyrir bændur sem leggja inn í afurðastöðvar sem eru í félagseign þeirra sjálfra/SS.