Beint í efni

KS tekur nýtt verðmat sláturgripa í notkun

01.09.2017

Í dag tók gildi ný verðskrá hjá Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og tekur hin nýja verðskrá mið af EUROP kjötmatskerfinu. Um afar umfangsmikla uppskiptingu á flokkum er að ræða enda eru 43 flokkar hjá KS innan ungnautakjöts og þrír þungaflokkar (undir 200 kg, 201-249 kg og þyngri en 250 kg) en þó eru ekki allir þungaflokkar notaðir með öllum holda- og fituflokkum. Því getur ungnaut lent í einum af tæplega 120 verðflokkum en ekki 129 flokkum, allt eftir þunga, holdfyllingu og fitu.

Ungar kýr geta flokkast í 20 ólíkir holda- og fituflokka og þrjá þyngarflokka (undir 180 kg, 181-199 kg og þyngri en 200 kg) en þó eru ekki allir þungaflokkar notaðir með öllum holda- og fituflokkum. Þá eru kúaflokkarnir 34 en þungaflokkarnir þó ekki nema tveir (undir og yfir 200 kg) og svo eru flokkarnir fyrir nautin sex með sömu þyngdarflokka og ungnaut. Ungkálfar verða áfram flokkaðir með sama hætti og verið hefur.

Þó svo að um afar flókna og viðamikla breytingu sé að ræða má búast við því að listinn taki breytingum nokkuð ört til að byrja með, allt eftir því hvernig kerfið reynist. Með því að smella hér má sjá gildandi verðskrá þar sem efst er nýr verðlisti KS og neðar í listanum eru upplýsingar hinna sláturleyfishafanna/SS.