Beint í efni

Króatíska greiðslustofan komin í fullan gang

13.09.2011

Frá því var sagt í leiðara hér á naut.is í síðustu viku, að ein af kröfum ESB í aðlögunarviðræðum Króatíu við sambandið, væri stofnun greiðslustofu landbúnaðarstuðnings (e. Paying agency). Stofnun slíkrar greiðslustofu væri lykillinn að áframhaldandi viðræðum um landbúnaðarkafla aðildarsamnings. Þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning Króata að ESB sé ekki fyrirhuguð fyrr en á næsta ári, hefur greiðslustofan tekið til starfa fyrir nokkru og eru höfuðstöðvarnar í Zagreb. Nafn hennar er á ensku er Paying Agency for Agriculture, Fisheries and Rural Development, eða Agencija za plaćanja u poljoprivredi, ribarstvu i ruralnom razvoju á máli þarlendra. Auk höfuðstöðvanna í Zagreb eru 20 svæðisskrifstofur vítt og breitt um landið.  

Í frétt á heimasíðu stofnunarinnar frá 2. nóvember 2010 kemur fram að starfsmenn hennar hafi þá nýlokið 3 daga námskeiði í Tékklandi þar sem farið var yfir helstu ferla varðandi stjórnun, eftirlit og útgreiðslu á beingreiðslum og styrkjum til byggðaþróunarverkefna, tölvu- og hugbúnaðarmál og yfirferð samþættra greiðsluskilyrða. Þjálfunin fór fram á vinnufundum og á vettvangi. Tekið er fram að reynslan frá Tékklandi um útdeilingu á stuðningi við landbúnað, muni nýtast vel við aðlögun að sambærilegu fyrirkomulagi vegna inngöngu Króatíu í ESB.

 

Þetta tekur því af öll tvímæli um að aðlögun að regluverki og stofnanaumhverfi ESB verður að fara fram, á meðan viðræður um landbúnaðarkaflann fara fram. Í tilfelli Króata stóðu þær yfir á tímabilinu 2. október 2009 til 19. apríl 2011. Jafnframt er ljóst að þetta fyrirkomulag sem ESB gerir kröfu um er feikilega kostnaðarsamt. T.d. er mannaflaþörf stofnunarinnar 518 starfsmenn og skipuritið er fjarri því að vera einfalt. Fjöldi bújarða í landinu er mjög mikill og einingarnar afar smáar. Því liggur í augum uppi að umtalsvert hlutfall af stuðningnum fer í kostnað við umsýslu og eftirlit./BHB

 

Heimasíða Króatísku greiðslustofunnar

 

Skipurit stofnunarinnar

 

Listi með svæðisskrifstofum og starfsmönnum þeirra

 

Framkvæmdaáætlun greiðslustofunnar

 

Kynningarrit um landbúnað í Króatíu