Beint í efni

Krefst skaðabóta vegna lélegrar ráðgjafar

07.05.2011

Danskur bóndi, sem býr á eyjunni Fjóni, vill meina að hann hafi fengið svo lélega ráðgjöf frá búnaðarsambandinu sínu varðandi skattamál, að hann hefur nú stefnt ráðunautunum fyrir dómstóla. Krefst hann skaðabóta að upphæð 680 milljóna króna (31 milljón Dkr) vegna ráðgjafarinnar sem var í tengslum við eignasölu hans. Talið er frekar ólíklegt að honum verði dæmdar svona háar bætur, en málið vekur athygli þar sem bótakrafan er gríðarlega há.

 

Ráðgjafamiðstöðin Centrovice sá um ráðgjöf til þessa bónda, en Centrovice veitir fjölþætta ráðgjöf á sviði landbúnaðar. Forsvarsmenn þess vilja ekki tjá sig um þetta mál að öðru leiti en því að þeir hafa þegar viðurkennt að bóndinn hafi ekki fengið bestu mögulegu ráðgjöf og eigi rétt á skaðabótum en aðilarnir hafi þó ekki náð saman um þær.

 

Staða máls þessa er þannig í dag að það er til umfjöllunar hjá sérstakri nefnd sem tekur fyrir öll kærumál vegna ráðgjafastarfsemi. Allir aðilar sem þjónusta bændur eru með tryggingar sem eiga að bæta möguleg tjón sem þjónustuaðilinn veldur og þessi nefnd fjallar títt um slíkar tjónabætur. Tryggingar þessar eru þó með föstu þaki, 44 milljónir króna (2 milljónir Dkr) sem hingað til hefur ekki verið farið upp fyrir í mati. Þetta er því prófmál en Centrovice er skuldbundið til þess að fara að niðurstöðum nefndarinnar. Verði bóndinn áfram ósáttur, eftir að nefndin hefur sagt sitt álit á málinu, getur hann hinsvegar alltaf haldið áfram með málið fyrir dómstóla. Samkvæmt dönskum fjölmiðlum er talið fullvíst að búnaðarsambandið sem um ræðir geti ekki staðið undir ítrustu skaðabótakröfu bóndans og fari svo að það dæmist til slíkrar greiðslu, verði það gjaldþrota!

 

Samhliða örum vexti danskra búa er dagljóst að sá sem veitir ráðgjöf á viðkomandi búi hefur afar mikla ábyrgð, bæði á sviði fóður-, kynbóta- og jarðræktarráðgjafar en ekki síður á sviði fjármálaráðgjafar s.s. í tengslum við styrkumsóknir til Evrópusambandsins. Tjón sem röng ráðgjöf veldur getur því orðið afar stórt á stærstu búunum og ljóst að ráðunautar þurfa nú að vera með mun dýrari tryggingar til þess að bæta mögulegt tjón sem ráðgjöfin veldur. Það mun hinsvegar einnig kalla á hækkun á taxta ráðunautanna!

 

Þess má geta að hér á landi gilda svipaðar reglur og í Danmörku, þ.e. þeir sem veita þjónustu eiga að hafa tryggingar til þess að bæta mögulegt tap sem þjónustan veldur. Landssamband kúabænda hefur t.d. aðstoðað félagsmenn sína við slíkar bótakröfur. Dæmi um slík tilfelli tengjast oftast rangri meðferð á skepnum s.s. vegna alvarlegs heltis í kjölfar klaufsnyrtingar, fósturláts vegna rangrar lyfjagjafar eða mikils afurðataps vegna óþarfa inngrips af einhverjum völdum. Kærur vegna beinna ráðgjafastarfa í landbúnaði hafa hinsvegar ekki komið til ennþá/SS.