Beint í efni

Kornspretta fer vel af stað

28.05.2008

Eins og landsmenn hafa vel orðið varir við, hefur verið einmuna blíða á landinu undanfarna daga. Það kemur sér einkar vel fyrir kornbændur, en sökum kulda og bleytu var sáning korns með seinni skipunum þetta vorið. Veðurguðirnir hafa bætt það upp nú síðustu daga með sólskini og miklum hlýindum. Myndirnar hér að neðan voru teknar í fyrrakvöld (26. maí) í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu, sú efri á Auðólfsstöðum en hin á Skriðulandi. Sáð var á Auðólfsstöðum 2. maí og yrkið er Judit, sex raða sænskt og fljótþroska yrki. Eins og sjá má er kornsprettan komin vel af stað og ætti því að horfa bærilega með uppskeruna.

Á ferðum sínum um landið að undanförnu hefur undirritaður orðið var við að talsvert meira land hefur verið brotið til kornræktar í vor en undanfarin ár. Er það ekki að undra í ljósi gríðarlegra hækkana á kornverði, sem gerir innlenda ræktun mun ábatasamari nú en áður.