Beint í efni

Könnun LK á framleiðsluaðstöðu kúabænda

06.02.2014

Um þessar mundir er að hefjast stefnumótun um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, en núverandi samningur þar um rennur sitt skeið á enda þann 31. desember 2016. Mikilvægur hluti af þeirri stefnumótun er mat á stöðu greinarinnar, þeirri framleiðsluaðstöðu sem hún býr við og líklegri endurnýjunarþörf á komandi árum. Stjórn Landssambands kúabænda hefur þess vegna ákveðið að gera könnun á framleiðsluaðstöðu kúabænda. Könnunin er netkönnun og hefur verið send til allra bænda með skráð netföng hjá Auðhumlu svf. og Mjólkursamlagi KS.

 

Könnunin samanstendur af 12 spurningum, sem tekur 5-10 mínútur að svara. Spurt er um byggingarár fjósa, stærð (básafjöldi), fjölda mjólkurkúa og hvort fjósunum hafi verið breytt í veigamiklum atriðum frá upprunalegri hönnun (t.d. breyting úr básafjósi í lausagöngu), hafi slíkt verið gert er spurt hvenær það var. Þá eru bændur beðnir að leggja mat á hvort endurbæta þurfi aðstöðu fyrir gripi í uppeldi, og þá hversu umfangsmiklar þær endurbætur þurfi að vera; minni háttar lagfæringar eða gagngerar endurbætur (stækkun og/eða nýbygging). Einnig er spurt um hversu lengi geymslurými fyrir búfjáráburð tekur við þeirri mykju sem fellur til á býlinu.

 

Í nágrannalöndum okkar er nokkuð um að bændur sem t.d. hafa hætt mjólkuframleiðslu, hafa tekið að sér að ala upp kvígur fyrir mjólkurframleiðendur. Kallast það að reka sk. „kvíguhótel“. Í því felst að bændur fá kvígukálfana til sín við um það bil þriggja mánaða aldur og ala kvígurnar fram að fyrsta burði, helst við um tveggja ára aldur. Þá er þeim skilað aftur til eigenda sinna, gegn fyrirfram umsaminni greiðslu. Spurt er hvort bændur geti hugsað sér að starfrækja slík „kvíguhótel“, eða hvort þeir geti hugsað sér að láta aðra bændur sjá um uppeldi á kvígum fyrir sig.

 

Að lokum er spurt um aldur ábúenda og hvort þeir séu félagar í aðildarfélagi LK. Þá er svarendum gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri, ef einhverjar eru.

 

Upplýsinga um netföng kúabænda var aflað hjá Auðhumlu svf. og Mjólkursamlagi KS. Nokkuð er um að fleiri en eitt netfang sé skráð á hvert bú og er þess óskað að þeir aðilar svari könnuninni aðeins einu sinni, svo niðurstöðurnar gefi sem skýrasta mynd af stöðunni.

 

Landssamband kúabænda hvetur umbjóðendur sína til að taka þátt í könnuninni fyrir 13. febrúar n.k.

 

Ekki er hægt að rekja niðurstöðurnar til einstaklinga.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda