
Kolefnisspor íslenskrar nautgriparæktar
05.02.2020
Ný skýrsla sýnir að kolefnisspor íslenskrar nautgriparæktar er á pari við það sem þekkist erlendis. Losun vegna nautgriparæktar og mjólkurframleiðslu á Íslandi árið 2018 nam 275.100 tonnum CO2-ígilda. Þeir þrír þættir sem spila þar stærstu hlutverkin eru; losun metans úr meltingarvegi (50%), losun vegna meðhöndlunar búfjáráburðar (13%) og losun vegna framleiðslu og flutnings tilbúins fóðurs (12%). Um 70% af kolefnisspori greinarinnar má rekja til líffræðilegra ferla í gripunum, þegar notkun húsdýraáburðar er einnig tekin inn í reikninginn. Skýrslan sýnir ekki eiginlegt kolefnisspor greinarinnar í þeim skilningi, þar sem bindingin er ekki tekin inn á móti, en með niðurstöðum hennar sjáum við núllpunktinn okkar og hvar áherslan þarf að vera til að draga úr losuninni.
Skýrslan var unnin af EFLU verkfræðistofu fyrir Landssamband kúabænda og er gerð hennar fyrsta skrefið hjá samtökunum í þeirri vinnu að draga markvisst úr kolefnislosun í íslenskri nautgriparækt, en í stefnumótun LK 2018-2028 er markmiðið að íslensk nautgriparækt verði kolefnisjöfnuð að fullu árið 2028. Það er mikilvægt fyrir samtökin að hafa loks upplýsingar um stöðuna í greininni eins og hún er í dag. Þannig sjáum við hvar áherslur okkar þurfa að liggja þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Þetta er fyrsta varðan af mörgum í vinnu LK að kolefnisjöfnun greinarinnar og bændur ætla sannanlega að taka þátt í því stóra verkefni sem baráttan gegn loftslagsbreytingum er.
Metanlosun úr meltingarvegi vegur mest
Heildarlosun frá dæmigerðu mjólkurframleiðslubúi er um 578 tonn CO2-ígildi á ári en það nemur um 1,0 kg CO2-ígildi á hvern lítra mjólkur og 18,2 kg CO2-ígildi á hvert kíló kjöts sem framleitt er á búinu. Heildarlosun frá dæmigerðu kjötframleiðslubúi nemur um 187 tonnum CO2-ígilda á ári sem samsvarar um 23,4 kg CO2-ígilda á hvert kíló kjöts. Niðurstöðurnar eru í ágætu samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna en algengt er að rannsóknir sýni að kolefnisspor nautakjöts sé á bilinu 17-37 kg CO2-ígildi á hvert kíló kjöts.
Kolefnissporið hér því er sambærilegt við það sem þekkist annars staðar og nær neðri mörkum. Líffræðileg iðragerjun gripanna er vissulega helmingur losunarinnar en það eru rannsóknir í gangi í dag, meðal annars á því hvort íblöndun þangs í fóður geti dregið úr losun metans frá nautgripum, sem gætu skipt sköpum fyrir þennan þátt losunarinnar. Í verkefninu SeaCH4NGE skoðar MATÍS hvort hægt sé að draga úr losun metans frá nautgripum með því að bæta þangi í fóðrið. Eins er skoðað hvaða áhrif þangát hefur á velferð dýra og gæði afurða. Rannsóknir sem framkvæmdar voru í Norður- Queensland í Ástralíu hafa sýnt að hægt er að draga verulega úr loftmengun í landbúnaði, ekki síst á metangasi frá nautgripum og öðrum jórturdýrum, með því einu að gefa þeim þang.
Breytt landnotkun ekki tekin með
Við útreikninga á kolefnisspori nautgriparæktar eru framleiðsla og flutningur aðfanga tekin með í reikninginn, sem og allt sem gerist í framleiðsluferlinu allt að hliði bóndans. Það sem gerist frá því framleiðsluvaran fer af bænum, s.s. flutningur, pökkun og notkun er ekki inn í þessari úttekt enda varan þá farin frá bónda.
Ekki er tekin fyrir breytt landnotkun, þ.e. losun frá landi sem áður var votlendi en hefur verið framræst og er nú notað undir nautgriparækt, þar sem gögn um slíkt liggja ekki fyrir. Það er hins vegar vinna í gangi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands við að endurkortleggja skurðarþekjuna og hvernig hún hefur breyst í gegnum tíðina og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki næsta haust. Þá verður hægt að sjá hluta nautgriparæktarinnar í losun frá framræstu landi.
Um mitt ár 2019 var sagt frá því að umfang framræsts votlendis á Íslandi er töluvert minna en áður var talið. Með nýju vistkerfakorti og hæðarlíkani fengu vísindamenn við LbhÍ nákvæmari gögn sem gaf gleggri mynd af umfangi svæðanna. Þá kom í ljós að flatarmál framræsts lands var 70.000 hekturum minna (eða 15-20% minna) en gert hafði verið ráð fyrir í eldra mati.
Starfshópur skilar tillögum 1. maí
Í breytingum á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar sem samþykktar voru í lok síðasta árs er eitt af markmiðunum að nautgriparækt verði kolefnisjöfnuð fyrir árið 2040. Þá var skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að setja saman verkáætlun þar sem tekin skulu fyrir verkefni á borð við að byggja upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, bættri fóðrun, meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar, markvissri jarðrækt o.fl. Á starfshópurinn að skila útfærslum á framangreindum atriðum 1. maí nk.