Köfnunarefnisbætt fóður dregur úr metangaslosun kúa!
18.08.2015
Nýleg dönsk rannsókn, sem unnin var við Háskólann í Árósum, sýnir að með því að bæta köfnunarefni í fóður mjólkurkúa má draga umtalsvert úr losun metans frá gripunum eða alls um 23%! Þó svo að þetta sé gert hefur það þó engin áhrif á meltanleika fóðursins né á heilbrigði gripanna sem éta fóðrið.
Þessi mikli samdráttur á metanframleiðslu er meiri en mælst hefur áður í sambærilegum tilraunum, þ.e. tilraunum sem gerðar eru í þeim tilgangi að draga úr metangasframleiðslu kúa en sem kunnugt er þá er metangas afar sterk gróðurhúsalofttegund.
Í tilrauninni var kalsíum-nítrat bætt út í fóðrið í þrennskonar magni á hvert gefið kíló þurrefnis fóðurs: 5 grömm, 14 grömm og 21 gramm. Í ljós kom að þetta magn hafði óveruleg áhrif á mjólkurgæði og voru mæld gildi í mjólkinni langt innan marka. Í öllum tilfellum varð verulegur samdráttur á metangasframleiðslu kúnna en hins vegar kom í ljós að þegar mesta magnið af kalsíum-nítrati var gefið, þá jókst framleiðsla kúnna á hláturgasi sem er einnig afar slæm gróðurhúsalofttegund.
Niðurstöður hinna dönsku vísindamanna benda því til þess að heppilegt magn kalsíum-nítrats sé einhversstaðar innan við 21 grömm/kg þurrefnis fóðursins en hvar nákvæmlega mörkin eru, er verkefni næstu tilraunar sem nú fer fram/SS.