Beint í efni

Kobe kjöt

25.08.2006

Það er kunnara en frá þurfi að segja að úr nautakjöti er hægt að matreiða dýrindis krásir. Þær stórfenglegustu eru þó að öllum líkindum framreiddar úr svonefndu kobe nautakjöti sem framleitt er í Tajima héraði í Japan, þar sem Kobe er höfuðborgin. Til framleiðslunnar eru notaðir gripir af Wagyu kyni, sem eru með mun fitusprengdari vöðva en gengur og gerist, ásamt hærra hlutfalli af CLA fitusýrum í kjötinu. Þá er hlutfall ómettaðrar fitu hærra en þekkist í nokkru öðru nautgripakyni. Þetta gerir það að verkum að kjötið er ákaflega meyrt. Verðið á þessu kjöti er gríðarlega hátt, allt að 600 $ fyrir kg, sem er nálægt 42.000 kr. Eftirlíkingar eru framleiddar í Bandaríkjunum, verðið á þeim er talsvert lægra en á ekta kobe kjöti.

Fóðrun og meðferð gripanna er þó sennilega sérstakari en dæmi eru um. Búin eru yfirleitt mjög lítil, með innan við 10 gripi. Yfir heitasta sumartímann eru gripirnir m.a. fóðraðir á bjór, en bjórinn er talinn hafa jákvæð áhrif á átlyst. Þegar líður að slátrun eru þeir einnig fóðraðir á miklu magni af bygghrati, sem er hliðarafurð bjórbruggunar. Til að hámarka vellíðan gripanna hafa þeir verið nuddaðir, sem var talið hafa vöðvaslakandi áhrif. Rannsóknir benda þó til þess að svo sé ekki, þannig að dregið hefur úr því. Þá er það trú manna í héraðinu að samhengi sé í mýkt felds og húðar og kjötgæða. Til að mýktin megi verða eins mikil og mögulegt er, eru nautgripir þessir kembdir með sake hrísgrjónabrennivíni. Steikurnar eru látnar meyrna í 21 dag fyrir neyslu. Ég hef enn ekki haft tækifæri á að smakka á þessu merka kjöti, en á ferð minni í New York á dögunum sá ég slíkan varning falboðinn á einu af veitingahúsum borgarinnar. Verðið á skammtinum var 100$, eða um 7.000 kr.