Beint í efni

Klaufskurðarbásar búnaðarsambandanna

18.07.2008

Hér á landi eru nú í notkun þrír klaufskurðarbásar á vegum búnaðarsambandanna. Kynbótastöð Suðurlands fékk einn í notkun í október í fyrra, umsjónarmaður hans er Guðmundur Jón Skúlason, síminn hjá honum er 862-1984. Einnig má panta básinn hjá BSSL í síma 480-1800. Greiða skal 5.000 kr komugjald og síðan 3.000 króna tímagjald á meðan klaufskurðinum stendur.

 

Þess má geta að Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkti Búnaðarsamböndin vegna kaupa á klaufskurðarbásunum.  

Búnaðarsamtök Vesturlands fengu bás á svipuðum tíma og Sunnlendingar. Umsjónarmaður á svæði samtakanna er Guðmundur Hallgrímsson. Þar á bæ er startgjaldið 10.200 + vsk, sem innifelur uppsetningu og þrif á básnum, en aðstaða heima á búunum ræður nokkru um hversu langan tíma það verk tekur. Tímagjaldið er 3.400 kr/klst + vsk. Tekið er við pöntunum í síma 437-1215 eða á bv@bondi.is.

 

Í júní sl. festu Búnaðarsamband Eyjafjarðar og Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga kaup á klaufskurðarbás. Umsjónarmaður hans er Sverrir Gunnlaugsson og er hann í umsjá Sverris Gunnlaugssonar. Ekki er boðið upp á að bændur fái básinn leigðan til að annast klaufskurðinn sjálfir. Gjaldskrá hefur verið ákveðin 3.600 kr./klst + vsk. Þar við bætist fastagjald sem svara til 3 klst., kr. 10.800. sem innifelur uppsetningu, þrif á bás og frágang. Tekið er við pöntunum í Búgarði í síma 460-4477.

 

Kúabændur á þessum svæðum eru eindregið hvattir til að nýta sér þessa þjónustu. Almenn ánægja bænda er með hana, kýrnar eru fljótar að jafna sig eftir klaufsnyrtingu (sumar eru sárfættar fyrst á eftir) og ótvírætt er að hún hefur jákvæð áhrif á líðan, afurðir, heilsufar og frjósemi kúnna.

 

Heimild: www.bssl.is www.buvest.is www.bugardur.is