Beint í efni

Kjötsalan dregist heldur saman

22.10.2011

Bændasamtökin hafa tekið saman nýjar framleiðslu- og sölutölur fyrir september. Í samantektinni kemur fram að sala á nautakjöti var 13,3% minni en hún var á sama tíma í fyrra og að ársfjórðungssalan hafi verið 1,2% minni. Þessi niðurstaða fyrir september hefur jafnframt leitt til þess að árssalan, þ.e. salan sl. 12 mánuði, er nú 2,0% minni en 12 mánuðina þar á undan.
 
Heildarframleiðsla nautgripakjöts sl. 12 mánuði var 3.779 tonn af 26.976 tonna framleiðslu kjöts í það heila og er hlutdeild nautakjötsins því 14,0% í framleiðslunni. Alls nam sala nautgripakjöts í mánuðinum 319 tonnum og sl. 12 mánuði var salan 3.778 tonn. Sé horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mánuðinum var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 177 tonn og á 12 mánaða grunni nemur ungnautakjötssalan 2.146 tonnum eða 56,8% af heildarsölunni. Sala á kýrkjöti á ársgrunni nam 1.364 tonnum eða sem nemur 36,1% af heildarsölunni.
 

Fyrstu átta mánuði ársins nam innflutningur nautgripakjöts 307 tonnum en hérlend sala af nautgripakjöti u.þ.b. 1.723 tonnum (m.v. 70% nýtingarhlutfall fallþunga). Selt nautgripakjöt hér á landi fyrstu átta mánuði ársins (janúar til ágúst) er því nálægt því að vera 2.030 tonn og hlutdeild innflutts nautgripakjöts því um 15,1%.

 

Sé litið til annarra kjöttegunda kemur í ljós að heildarsalan hefur dregist saman sl. 12 mánuði um 3,4%. Mest er salan á alífuglakjöti á landsvísu eða 6.939 tonn (29,9%) og þar á eftir kemur lambakjöt með 5.989 tonn eða 25,8% markaðshlutdeild/SS.