Beint í efni

Kjötsala á landsvísu dregst saman

16.07.2011

Bændasamtökin hafa nú tekið saman nýjar framleiðslu- og sölutölur fyrir júní. Í samantektinni kemur fram að sala á nautakjöti var 11,7% minni en hún var á sama tíma í fyrra og að ársfjórðungssalan hafi verið 2,7% minni. Þetta hefur jafnframt leitt til þess að árssalan, þ.e. salan sl. 12 mánuði, er nú 1,6% minni en 12 mánuðina þar á undan. Skýringuna á þessum sölusamdrætti er fyrst og fremst að finna í framleiðslusamdrætti.

 

Heildarframleiðslan sl. 12 mánuði var 3.785 tonn af 26.606 tonna framleiðslu kjöts í það heila og er hlutdeild nautakjötsins því 14,2% í framleiðslunni. Alls nam sala nautgripakjöts í mánuðinum 305 tonnum og sl. 12 mánuði 3.789 tonnum. Horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mánuðinum var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 189 tonn og á 12 mánaða grunni nemur ungnautakjötssalan 2.153 tonnum eða 56,8% af heildarframleiðslunni. Sala á kýrkjöti á ársgrunni nam 1.357 tonnum eða sem nemur 35,8% framleidds nautgripakjöts.

 

Sé litið til annarra kjöttegunda kemur í ljós að heildarsalan hefur dregist saman sl. 12 mánuði um 2,4% og sýnir nú engin kjöttegund söluaukningu frá fyrra ári – sem er ný staða. Enn er mest sala á alífuglakjöti á landsvísu eða 6.930 tonn (29,6%) en þar á eftir kemur kindakjöt með 6.184 tonn (26,4%) og þá svínakjöt með 6.013 tonn (25,6%)/SS.