Beint í efni

Kjöt, mjólk og egg mikilvægir fæðugjafar

27.04.2023

Í nýrri skýrslu frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) um framlag landdýra til heilbrigðs mataræðis kemur fram að kjöt, mjólk og egg séu einstök uppspretta ýmissa örnæringarefna sem torvelt sé að fá úr matvælum úr jurtaríkinu. Einnig hvetur stofnunin til þess að ríkisstjórnir landa ættu að stuðla að ávinningi af því að framleiða mat frá dýrum á landi en á sama tíma taka tillit til áskorana sem tengjast búfé, þar með talið að umhverfismálum.

Skýrsla FAO eru viðbrögð við umfjöllun um næringargildi, hollustu og umhverfisáhrif af matvælum sem eru afurðir landdýra. Í skýrslunni er áætlað að 18% af orku í mat sem mannkyn neytir komi frá landdýrum og um 34% af próteinneyslunni. Bent er á mikilvægi kjöts, mjólkur og eggja á helstu lífsstigum eins og á meðgöngu og við brjóstagjöf, í barnæsku, á unglingsárum og þegar fólk fer að eldast.


Heilbrigt mataræði fyrir bætta næringu og heilsufar

Rannsóknin sem skýrslan byggir á er birt undir yfirskriftinni Contribution of terrestrial animal source food og er umfangsmesta greining til þessa á ávinningi og áhættu af neyslu á dýraafurðum. Hún er byggð á gögnum og sönnunargögnum úr meira en 500 vísindaritum og um 250 stefnuskjölum.

Kjöt, mjólk og egg veita margvísleg mikilvæg fjölnæringarefni eins og prótein, fitu og kolvetni ásamt örnæringarefnum sem erfitt er að fá úr jurtafæðu í tilskildum gæðum og magni. Hágæðaprótein, fjöldi lífsnauðsynlegra fitusýra, járn, kalsíum, sink, selen, B12-vítamín, kólín og lífvirk efnasambönd eins og karnitín, kreatín og taurín koma úr dýraafurðum og hafa mikilvæga heilsu- og þroskavirkni.  

Skortur á járni og A-vítamíni eru meðal algengustu örnæringarskorts um allan heim, sérstaklega hjá börnum og barnshafandi konum. Á heimsvísu þjáist meira en 1 af hverjum 2 börnum á leikskólaaldri, eða tæplega 400 milljónir barna og 1,2 milljarðar kvenna á barneignaraldri af skorti á að minnsta kosti einu af þremur örnæringarefnum; járni, A-vítamíni og/eða sinki. Þrír fjórðu þessara barna búa í Suður- og Austur-Asíu, Kyrrahafi og í Afríku sunnan Sahara.

Ekki kemur á óvart að samkvæmt skýrslunni er neysla matar frá landdýrum, þar á meðal á kjöti, mjólk og eggjum mjög mismunandi um allan heim. Á meðan karlmaður frá Kongó neytir að meðaltali aðeins um 160 grömm af mjólk eða mjólkurvörum á ári neytir sá hinn sami í Svartfjallalandi 338 kíló af mjólk og/eða mjólkurvörum. Sé horft á eggjaneyslu neytir einstaklingur í Suður-Súdan aðeins um tveimur grömmum að meðaltali á ári af eggjum á meðan einstaklingur í Hong Kong neytir um 25 kílóum af eggjum á ári. Meðalmaður í Búrúndí neytir aðeins um þremur kílóum af kjöti á ári en kjötneysla einstaklings í Hong Kong er um 136 kíló á ári.


Ríkisstjórnir hvattar til að uppfæra næringarráð

Í skýrslunni er einnig fjallað um vísbendingar um áhættu þess að neyta afurða frá dýrum og kemur þar fram að neysla á litlu magni af unnu rauðu kjöti geti aukið hættuna á dánartíðni og langvinnum sjúkdómum, þar með talið hjarta- og æðasjúkdómum ásamt ristilkrabbameini. Hins vegar getur neysla á óunnu rauðu kjöti í hóflegu magni haft lágmarksáhættu í för með sér með tilliti til langvinnra sjúkdóma.

Á sama tíma eru vísbendingar um tengsl á milli mjólkur-, eggja-, og alifuglaneyslu hjá heilbrigðum fullorðnum einstaklingum við sjúkdóma eins og kransæðasjúkdóma, heilablóðfall og háþrýsting ófullnægjandi eða ekki marktækar.

Í framhaldinu hefur landbúnaðarnefnd FAO hvatt ríkisstjórnir landa til að uppfæra innlendar næringarleiðbeiningar um mataræði og leggja áherslu á hvernig kjöt, mjólk og egg geta stuðlað að sértækum næringarþörfum á lífsferlum manna.