Beint í efni

Kjarnfóðurtollur felldur niður frá ríkjum ESB

04.04.2008

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá því á aðalfundi Landssambands kúabænda í dag að kjarnfóðurtollar verði felldir niður á öllum fóðurblöndum frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins frá og með 1. maí nk. en áfram verði innheimt óbreytt gjald af fóðurblöndum frá öðrum löndum. Tollurinn er 3,90 kr/kg af blönduðu fóðri. Þessi breyting verður tímabundin til næstu áramóta og ræðst framhaldið af því hvernig samningar um gagnkvæmar tollaívilnanir á landbúnaðarvörum þróast á milli Íslands og Evrópusambandsins.

Í ræðu sinni við setningu fundarins fjallaði ráðherra um rekstrarumhverfi landbúnaðarins, vakti athygli á áhrifum alþjóðasamninga og hvernig Svisslendingar hafa brugðist við. „Nýverið hafa svissnesk stjórnvöld samþykkt að taka upp viðræður við Evrópusambandið um aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Líklegt má telja að Sviss og Evrópusambandið semji um afnám tolla í viðskiptum sínum á næstu 3-5 árum og verði þannig á undan þeirri aðlögun sem fyrirhuguð er á vettvangi WTO. Þessi staða hefði ekki þótt líkleg fyrir aðeins örfáum árum, enda Svisslendingar kunnir fyrir aðgætni, þegar kemur að lækkun tolla og opnun markaða í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Sviss hefur verið í broddi fylkingar þeirra þjóða sem meðal annarra Íslendingar og Norðmenn skipa og vilja sjá hægfara þróun opnari viðskipta með landbúnaðarvörur á vettvangi WTO og reyndar eru þeir talsmenn þess hóps, svokallaðs G-10 hóps, sem stendur vörð um hægfara þróun í þessum viðskiptum. Þessi stefnubreyting Svisslendinga gagnvart ESB er því umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga og sterk vísbending um það, að viðskiptaumhverfi okkar geti tekið hraðari breytingum á næstunni en við höfðum reiknað með.“

Ráðherra áréttaði að ekki mætti bíða hugsunarlaust eftir því sem verða vildi eða láta alþjóðasamninga þvinga Íslendinga óundirbúið til aðgerða. „Við höfum verk að vinna við að búa okkur undir breytta framtíð. Í þeirri vinnu skulum við byggja á styrkleikum íslensks landbúnaðar og vera vakandi yfir þeim tækifærum sem framtíðin hefur upp á að bjóða.“

Margt bendi til að ýmis konar möguleikar felist í þeim hræringum sem orðið hafi á alþjóðlegum matvælamarkaði. Þær kunni að styrkja hlutfallslega samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar auk þess sem lægra gengi íslensku krónunnar auki útflutningsmöguleikana og bæti almennt samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu. „Gleymum því ekki að við erum útflutningsþjóð og þegar við gerum viðskiptasamninga við önnur ríki eða ríkjasambönd þá hljótum við ekki síður að hafa þá hagsmuni í huga, en hagsmuni innflutningsins. Þess vegna hef ég lagt á það ofuráherslu að við semjum ekki um einhliða tollalækkanir heldur gagnkvæmar, svo að útflutningsgreinar okkar njóti ávinningsins einnig,“ sagði Einar Kristinn Guðfinnsson á aðalfundi Landssambands kúabænda.