Beint í efni

Kjarnfóðurfyrirtæki fjárfestir í mjólkurvinnslu

04.07.2016

Kjarnfóðurfyrirtækið LATRAPS í Lettlandi, sem er samvinnufélag þar í landi, hefur nú keypt stóran hlut í þarlendri afurðastöð í mjólkurvinnslu. Lettar hafa verið í miklu erfiðleikum endanfarin misseri eftir að Rússar lokuðu á allan innflutning matvæla frá flestum af hinum vestrænu ríkjum, m.a. Lettlandi. Afurðafélög landsins byggðu stóran hluta tekna sinna á útflutningi til Rússlands og hafa ekki náð vopnum sínum almennilega eftir lokun markaðarins. Þetta hefur leitt til þess að fjárhagsstaðan hefur verið erfið og því reyndist nauðsynlegt að fá inn nýja aðila með fjármagn.

 

LATRAPS, sem er ráðandi á korn- og kjarnfóðurmarkaðinu í Lettlandi, hefur fengið samþykki samkeppnisyfirvalda fyrir kaupum á 73,3% hlut í félaginu Latvijas Piens, sem er samvinnufélag 600 kúabænda. Latvijas Piens er með sterka stöðu á sínum heimamarkaði en hefur eftir lokun markaðarins í Rússlandi selt 50% mjólkurinnar sem óunna beint til Litháen. Þau viðskipti hafa skilað félaginu afar litlu og var félagið komið í veruleg vandræði, þegar LATRAPS kom til sögunnar. Hvort takist að bjarga félaginu frá þroti kemur í ljós á komandi mánuðum.

 

Árleg mjólkurframleiðsla allra kúabúa Lettlands nemur um 800 milljónum lítra en í landinu eru í dag um 25 þúsund skráðir mjólkurframleiðendur og er því reiknuð meðalframleiðsla ekki nema 32 þúsund lítrar! Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar kemur hins vegar skýringin í ljós en af þessum 25 þúsund kúabúum eru 21 þúsund með kýr sem eru einungis til heimanota! Undir landsframleiðslunni standa því um 4 þúsund kúabú og er meðalframleiðsla þeirra um 200 þúsund lítrar á ári/SS.