
Kínverskt afurðafélag í skuldafeni
13.06.2017
Það gengur misvel hjá þeim afurðafyrirtækjum sem finnast í heiminum og það er víst óhætt að segja að kínverska afurðafyrirtækið Huishan Dairy, eitt af stærstu afurðafyrirtækjum Kína, hafi átt betri daga. Á mánudaginn var tilkynnti fyrirtækið, sem er á markaði, að það myndi ekki takast að birta uppgjör fyrsta ársfjórðungs ársins og er skýringin á því að fyrirtækið á í gríðarlegum vandræðum vegna himinhárra skulda.
Samkvæmt frétt í Dairy Industry Newsletter nema skuldir Huishan Dairy nærri 400 milljörðum íslenskra króna og eru nú bankarnir Bank of China og HSBC, sem standa undir flestum lánum til Huishan Dairy, að reyna að ná í eitthvað af þessum aurum á ný. Það gæti þó reynst erfitt en fyrirtækið hefur ekki borgað af einu einasta láni síðan 24. mars, en þann dag hríðféllu hlutabréfin í Huishan Dairy í kauphöllinni í Kína og síðan hefur ekki verið hægt að kaupa eða selja hlutabréf í fyrirtækinu. Líklega búast nú flestir við gjaldþroti fyrirtækisins en það er afar sjaldan sem afurðafyrirtæki í mjólkuriðnaði af þessari stærð, þ.e. með marga milljarða lítra vinnslu, fari á hausinn/SS.