Beint í efni

Kínverjar velja morgunkorn með mjólk

16.09.2016

Fleiri og fleiri Kínverjar velja nú orðið morgunkorn með mjólk í morgunmat og haldi þessi þróun áfram í Kína er útlit fyrir verulega breytingu á mjólkursölu þar í landi. Neysla mjólkur í Kína er enn sem komið er afar lítil en sem kunnugt er hafa öll helstu afurðafélög heims horft til kínverska markaðarins til þess að geta selt mjólkurvörur sínar. Í raun hefur salan gengið afar vel en hún hefur þó að mestu verið borin uppi með lítilli sölu á hvern íbúa en þar sem þeir eru svo margir hefur heildarsalan verið góð. Nú sjást hins vegar merki um breytta neysluhegðun sem gæti haft veruleg áhrif á heimsmarkaðssölu mjólkurvara.

 

Að nota mjólk út á morgunkorn virkar etv. hversdagslegt hér á Íslandi en í Kína er þetta enn sjaldgæf sjón á borðum landsmanna og er talið að einungis 6% íbúa landsins fái sér morgunkorn með mjólk út á í morgunmat. Enn sem komið er eru það helst ungt fólk og ungir foreldrar og börn þeirra sem fá sér morgunkorn og með vaxandi fjölda barna í Kína, eftir að foreldrum var heimilað að eignast tvö börn, er þess vænst að mikil aukning verði í neyslu á morgunkorni á næstu árum og þar með sölu á drykkjarmjólk/SS.