Kínverjar byrjaðir að fjárfesta í afurðastöðvum í Evrópu
02.04.2011
Fyrirtækið Ausnutria Dairy Corporation, sem skráð er í Hong Kong, hefur nú tekið yfir Hyproca Dairy Group, eina elstu afurðastöðina í Hollandi en Hyproca var stofnað fyrir 114 árum. Ausnutria er framleiðandi á ungbarnamjólkurdufti og með þessum kaupum hefur fyrirtækið markað nýja stefnu þar sem hingað til hafa fjárfestingar þess verið í Asíu og Ástralíu.
Hyproca er reyndar ekki sérlega stórt afurðafyrirtæki á evrópska vísu en kaup Kínverjanna á því hafa hinsvegar vakið töluverða athygli í afurðastöðvaheiminum. Reyndar er oft litið á þetta fyrirtæki sem ástralskt/kínverskt vegna tengingar þess við Ástralíu en það er þó skráð í Hong Kong.
Eftir að melamin-hneykslið kom upp í Kína árið 2008 hefur innflutningur mjólkurvara til Kína vaxið afar mikið, samhliða aukinni kaupgetu og breytinga á neysluhegðun þarlendra. Þessi staða hefur skapað mikil tækifæri fyrir erlend fyrirtæki en svo virðist sem Kínverjar hafi sjálfir leitað að erlendum vörum í stað innlendra, sem leitt hefur til þess að kínversku fyrirtækin sækja nú í að kaupa upp framleiðendur utan Kína. /SS