
Kínverjar auka umsvifin í Nýja-Sjálandi
07.04.2017
Við sögðum frá því um daginn að nýsjálenska afurðafélagið Fonterra gengi vel þessa dagana og byggir það m.a. á góðu gengi við útflutning mjólkurvara frá Nýja-Sjálandi til Kína. En Fonterra er ekki eini aðilinn í landinu sem flytur mjólkurvörur út og til Kína, það gerir nefninlega kínverska fyrirtækið Yili einnig. Yili er stærsta afurðafyrirtæki Kína á sviði mjólkurvinnslu og er með afar sterka stöðu á kínverska markaðinum. Til þess að efla fyrirtækið enn frekar hóf það uppbyggingastarf í Nýja-Sjálandi einnig, en vart er til það land í heiminum þar sem hægt er að framleiða mjólk með hagkvæmari hætti.
Vegna góðs aðgengis Yili að markaðinum í Kína borgar fyrirtækið nýsjálenskum kúabændum vel fyrir mjólkina og það töluvert betur en Fonterra gerir. Fyrir vikið hefur Yili fengið marga áhugasama kúabændur í lið með sér og sem stendur leggja 67 kúabú inn mjólk hjá Yili en ætla má að þessi bú séu með áþekkan fjölda kúa og öll kúabú á Íslandi en meðalbúið í Nýja-Sjálandi er með rúmlega 400 kýr. En Yili getur selt meira og af þeim sökum hefur nú verið ákveðið að stækka vinnslustöð fyrirtækisins í Glenavy í suður Canterbury. Þar verður í framtíðinni lögð áhersla á G-vöruframleiðslu, mjólkurduft fyrir ungabörn og fleiri sérvörum/SS.