Kínverjar á skólabekk í Svíþjóð
30.08.2011
Eins og margoft hefur komið fram hér á naut.is er mikil þörf fyrir mjólk í Kína samhliða bættum hag þarlendra. Auk þess hafa stjórnvöld ákveðið að í öllum skólum skuli verða mjólk á boðstólum fyrir grunnskólanemana og kallar sú ákvörðun ein og sér á stóraukna mjólkurneyslu. Þrátt fyrir að í Kína séu nú all mörg stór kúabú er þekking á mjólkurframleiðslu hinsvegar ekki mikil og flest stærri bú landsins hafa verið byggð upp af erlendum félögum.
Nú ætla Kínverjar að taka málin í eigin hendur og hafa í því sambandi m.a. sent 15 starfsmenn frá nokkrum af stærstu kúabúum landsins til Svíþjóðar. Þar verða þeir á skólabekk í Landbúnaðarháskólanum í 14 daga þar sem þeir fá fræðslu m.a. um dýraheilbrigði, velferðarmál ofl., auk þess sem þeir verða í verknámi á tilraunabúi DeLaval rétt utan við Stokkhólm/SS.