
Kína verður stærsti mjólkurvörumarkaður heims 2022
30.08.2017
Markaðssetning mjólkurvara í Kína gengur framar öllum vonum og eykst sala mjólkurvara þar jafnt. Samkvæmt nýrri spá, sem birt var í fréttamiðlinum Dairy Reporter, kemur fram að talið er að Kína verði orðinn stærsti markaður mjólkurvara í heiminum eftir fimm ár en í dag eru það Bandaríkin sem eru stærsti markaðurinn. Þá er vöxturinn innan Indlands eftirtektarverður en sá markaður er talinn verða sá fjórði stærsti í heiminum eftir fimm ár.
Sé litið til einstakra mjólkurvara þá er það hefðbundið jógúrt og drykkjarjógúrt sem gengur best í Kínverjana en aðrar mjólkurvörur eru einnig í vexti. Enn sem komið er byggir salan í Kína mikið til á innfluttum mjólkurvörum, en unnið er að því hörðum höndum að efla innanlandsframleiðslu Kína á mjólkurvörum bæði úr mjólk sem framleidd er í Kína en einnig úr innfluttu hráefni, sem þá er unnið í samvinnu kínverskra afurðafyrirtækja og erlendra afurðafyrirtækja/SS.