Beint í efni

Kína leyfir sæði frá Noregi

16.12.2017

Geno, ræktunarfélag norskra kúabænda, hefur nú fengið leyfi til þess að selja sæði til Kína og er þetta afar stór áfangi fyrir frændur okkar Norðmenn. Ferlið, að fá samþykki til innflutnings á sæði til Kína, hefur tekið mörg ár og hefur þetta verið bæði flókið og umfangsmikið verkefni sem Geno fór í gegnum til þess að fá þetta mikilvæga leyfi. Sæðið flytur Geno til Kína með dótturfélaginu Geno Global AS, en það félag er í dag með starfsemi í rúmlega 30 löndum.

Markaðurinn í Kína er hreint ekki auðveldur enda hefur mjólkurverð þar lækkað um 20-30% á liðnum árum vegna mikils innflutnings á mjólkurvörum frá öðrum löndum sem hefur þrýst afurðastöðvaverði í Kína niður. Þetta telja þó forsvarsmenn Geno hagstætt fyrir norska sæðið enda NRF kúakynið sterkt og stendur vel fyrir sínu í samkeppninni við hið algenga Holstein kúakyn.

Nú fyrir áramótin fara 20 þúsund skammtar til Kína og þess er svo vænst að á næsta ári verði fluttir 100 þúsund skammtar til landsins og verður Kína þá stærsti móttakandi á sæði frá Geno. Hlutur Geno verður þó ekki sérlega stór í Kína, en þarlendur markaður notar árlega 25-30 milljónir stráa á ári og þar eru í dag starfræktar 30 nautastöðvar og auk þess er töluvert flutt inn af sæði til landsins/SS.