Kína: Gæti þurft að loka meira en 400 afurðastöðvum!
18.03.2011
Kínversk yfirvöld hafa hert verulega gæðakröfurnar sem gerðar eru til afurðastöðva í mjólkurvinnslu og er nú svo komið að talið er að hætta sé á að hinar nýju kröfur muni gera útaf við margar af þarlendum afurðastöðvum.
Samkvæmt skýrslu frá kínverskum stjórnvöldum er talið að allt af fjórða hver mjólkurafurðastöð í Kína eigi á hættu að verða lokað þar sem stöðvarnar uppfylla ekki hörðustu kröfur að sögn Dairy Industry Newsletter.
Hinar nýju og hörðu kröfur koma í kjölfar hneykslismálanna sem upp komu síðustu ár þegar mjólkurvörur, mengaðar af melamin, voru settar á markað. Allar afurðastöðvar þurfa nú fyrir lok mánaðarins að ganga í gegnum endurnýjun á framleiðsluleyfum í samræmi við nýjar reglur um uppbyggingu og frágang. Talið er ljóst að margar þeirra muni ekki fá endurnýjuð starfsleyfi sín en til þess að fá leyfin þurfa þær að vera með búnað sem greinir innihald melanin í vörum, auk þess að hafa faglært starfsfólk við gæðastjórn.
Í Kína eru í dag starfræktar 1.800 afurðastöðvar sem vinna úr mjólk og þar af eru fimm stór afurðafélög sem ráða yfir 2/3 hluta markaðarins. Nokkuð misjafnt er eftir héruðum hver staða afurðastöðvanna er. Þannig munu amk. 20 af 61 afurðastöð í Hebei-svæðinu loka og 24 af 78 afurðastövðum í Shaanxi-svæðinu hefur þegar verið lokað vegna nýju reglanna.
Lokanirnar munu hafa þau skammtímaáhrif að skortur verður á mjólkurvörum sem mun kalla á aukinn innflutning, en til lengri tíma litið er talið að aðgerðirnar muni tryggja afurðavinnslu í Kína. /SS