Keyptu þúsund tonn af íslensku byggi árið 2010, vilja meira!
29.01.2011
Á liðnum misserum hefur bændum landsins birst ítrekaðar upplýsingar um verðhækkanir á heimsmörkuðum með hráefni til landbúnaðarframleiðslu og fyrr í vikunni fór verð á hveiti hærra en það hefur farið frá því í ársbyrjun 2007. Naut.is lék forvitni á að vita hvert útlitið væri með helstu aðföng bænda á næstu mánuðum og tók Eyjólf Sigurðsson, framkvæmdastjóra Fóðurblöndunnar tali í því sambandi. Að hans sögn hefur verð á hveiti á heimsmarkaðinum hækkað um rúmlega 100% á einu ári og ólíklegt að breyting verði á fyrr en ný uppskera kemur í hús í Evrópu í ágúst. „Ástæðan er aukin eftirspurn sem kemur til vegna skorts á korni m.a. vegna þurrkanna sem voru í Rússlandi síðastliðið haust og ekki hafa þessi mál lagast eftir flóðin í Ástralíu. Samhliða hafa aðrar korntegundir hækkað einnig s.s. bygg, maís og soyamjöl en þetta er uppistaðan í íslenskri fóðurgerð. Af þessum sökum er mjög líklegt að fóður hækki enn frekar hér á landi á næstu
vikum, en eitthvað af þessum hækkunum eru þegar komnar inn í verðin“, sagði Eyjólfur í viðtali við naut.is.
Spáir verðhækkunum á áburði
En hvernig metur Eyjólfur útlitið með áburðarverð á þessu ári? „Áburður hefur verið að hækka verulega á erlendum mörkuðum á undanförnu og eru ástæður þess þær sömu og fyrrnefndar ástæður hækkana á korni, enda markaðir fyrir korn og önnur aðföng samtengdir. Mér sýnist að áburður hafi verið að hækka um 25 – 40% m.v. Evrur og þá er bara spurning um hvernig gengið verður á íslensku krónunni þegar áburðurinn kemur. Jafnframt er því miður útlit fyrir miklar hækkanir á sáðvöru, fræi og korni af sömu ástæðum“, sagði Eyjólfur.
Keyptu þúsund tonn árið 2010, vilja meira!
Aðspurður um möguleg tækifæri fyrir íslenskan landbúnað í þessar stöðu sagði Eyjólfur
![]() |
Eyjólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar |
að Fóðurblandan og dótturfélög fyrirtækisins hafi keypt um 1.000 tonn af íslensku byggi og íslenskum höfrum árið 2010 og sé mikill vilji til þess að auka þau kaup á árinu 2011. Til þess að svo megi vera þurfi þó að bæta skilyrði til kornviðskipta t.d. með afkastaaukningu þurrkstöðva og jafnframt telur hann að lækka þurfi þurrkkostnaðinn t.d. með því að nýta jarðvarma betur.
Fóður fyrir íslenskar aðstæður
„Mjólkurframleiðslan hefur hefur heldur dregist saman síðustu misseri, enda hefur íbúum fækkað og neysluvenjur breyst með kreppunni og kemur það fram í kjarnfóðursölu“, segir Eyjólfur og bætir við: „Það skiptir máli að vera með rétt fóður fyrir kýrnar og verður að miða það við efnagreiningu heysýna sem geta verið mismunandi eftir staðsetningu, tíma og fjölda slátta. Fóðurblandan hefur breytt samsetningu á bætiefnum í kjarnfóðrinu í samræmi við greiningar á heysýnum, en það er nauðsynlegt fyrir fóðursala á íslenska markaðinum að selja þá vöru sem hentar íslenskum aðstæðum sem eru mjög ólíkar aðstæðum í Evrópu. Þær breytingar hafa þegar haft góð áhrif, sérstaklega á gossvæðunum þar sem heysýnagreiningar sýndu t.d. að járn var yfir hættumörkum og því nauðsynlegt að stemma stigu við það í kjarnfóðrinu“.
Einnig með mjaltatæki
Sænski mjaltatækjaframleiðandinn DeLaval valdi Fóðurblönduna til þess að leiða áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins hér á landi, þegar fyrri umboðsaðili varð gjaldþrota árið 2009 og vegna ótvíðræðna hagsmuna kúabænda hér á landi, sem lang flestir eru einmitt með mjaltatæki frá DeLaval liggur beint við að spyrja út í þann þátt starfseminnar.
„Í dag eru 34 mjaltaþjónar frá okkur hér á landi og um 500 hefðbundin mjaltakerfi frá DeLaval og frá því við tókum við umboðinu höfum við lagt áherslu á að þjónusta þá kúabændur sem eru með okkar merki svo tryggt sé að gæðin í mjólkinni skili sér alla leið til neytenda. Við erum með þrjá þjónustumenn sem sinna bændum allan sólarhringinn, allt árið um kring. Þeir sinna reglubundnu eftirliti og viðhaldi á tækjum og afgreiða rekstrarvöru til bænda. Varahlutir og rekstrarvara fást svo einnig hjá söluaðilum Fóðurblöndunnar um allt land, en einnig er hægt að fá þær vörur heimsendar með fóðurbílnum“, sagði Eyjóflur.
Að hans sögn leggur hið sænska DeLaval fyrirtæki áherslu á að selja mjólkurframleiðendum um allan heim vörur sem uppfylla stöngustu kröfur og jafnframt að þróa mjaltabúnaðinn áfram. Gott dæmi um það hafi verið hin alsjálfvirki hringekjumjaltabás sem kynntur var síðla árs 2010 og fyrirtækið hefur hlotið mikið lof fyrir. Þá sé fyrirtækið einnig leiðandi með margvíslegan annan tækjabúnað fyrir fjós s.s. á sviði fóðrunar, flórsköfubúnaðar, mjólkurtanka, innréttinga og svo mætti lengi telja.
Með sérvöruverslanir um allt land
Fóðurblandan rekur verslanir á Selfossi, Hvolsvelli, Egilsstöðum og í samstarfi við samstarfsaðila á Akureyri, í Borgarnesi og í Skagafirði. „Fóðurblandan er með þessu að færa nær bændum þá þjónustu sem þarf en í þessum verslunum er seld flest sú rekstrarvara sem þarf í búrekstur. Þarna seljum við m.a. sérhannaða steinefna- og vítamínstampa fyrir íslenskar aðstæður, rekstrarvörur fyrir DeLaval mjaltkerfin, vinnuföt, sáðvöru, girðingarefni, hreinlætisvörur, plast, verkfæri og aðrar búrekstrarvörur“, sagði Eyjólfur að lokum í samtali við naut.is.