Beint í efni

Keypt í matinn

27.11.2007

Á dögunum barst ritstjóra naut.is áskorun um að fá birta grein Kristjáns B. Jónassonar „Keypt í matinn“ sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 10. nóvember sl. Greinin er birt hér í heild sinni með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

„Matur hefur alltaf verið eitt af höfuðbitbeinum íslensks samfélags. Fyrstu landnemarnir rákust strax á vandkvæði næringarnáms hér um slóðir og átakanlegur skortur á næringarefnum setti mark sitt sögu íslenskrar alþýðu. Matvæladeilur síðustu áratuga eru að sönnu flóknari en helber neyð genginna alda, en kjarninn er sá sami: Hvernig tryggjum við alþýðunni næg næringarefni svo hún sitji ánægð í sínum ranni, snúi áfram vindmyllum atvinnulífsins og leggist ekki í flakk?

 

Hluti af tilslökunarstefnunni sem ríkisstjórnir Vesturlanda ráku gagnvart kröfum alþýðunnar um miðja 20. öld var að tryggja henni betri mat. Þetta þýddi að draumur fátæks fólks um að hafa kjöt á borðum oftar en einu sinni í viku varð að rætast. Í kjölfarið íhlutuðust ríkistjórnir um viðskipti með landbúnaðarvörur með niðurgreiðslum, framleiðslustyrkjum og ýmiss konar ívilnunum sem áttu að tryggja annars vegar að þjóðríkin væru sjálfbjarga um mat og hins vegar að almenningur gæti borðað það sem hann lysti. Tækniþróun, kynbætur, ný afbrigði, nýjar (og oft skelfilegar og ómannúðlegar) aðferðir við dýrahald þrýstu svo verðinu enn niður uns svo er komið að neikvæðar afleiðingar ofgnóttarinnar eru orðnar að óyfirstíganlegu vandamáli fyrir lýðheilsu þróaðra landa. Og ekki nóg með það: Þær eru byrði á vistkerfinu og ögrun við siðferðisvitund upplýsts fólks.

Vindar tóku að snúast þegar ömurleiki matvælaiðnaðarins varð ljós. Vörur í „hippabúðum“ sem seldu furðumat sem skrítimenni ein lögðu sér til munns fyrir 15–20 árum síðan fást nú í öllum stórmörkuðum. Egg undan „frjálsum hænum“ fylla nú búðarkælana. Það er meira að segja til lífrænn ís. Við viljum ekki að börnin okkar borði annað en fyrsta flokks fæði. Og þetta fæði er lífrænt og – íslenskt. Framkvæmdastjóri Bónussverslananna, Guðmundur Marteinsson, staðfestir þetta í afar fróðlegu spjalli í síðasta tölublaði Bændablaðsins (6. nóvember): „Fólk er […] orðið meira meðvitað um innihald og næringargildi matarins. Þess vegna rokselst harðfiskur og skyr því þar vita neytendur að þeir fá mikið af Omega-3 fitusýrum og próteini.“


 Það er náttúrlega athyglisvert í sögulegu samhengi að skyr og harðfiskur, grunnfæða Íslendinga í aldanna rás, skuli enn rokseljast. Og þetta er athyglisvert í því ljósi að harðfiskur er ekki ódýr vara, raunar fokdýr, en maður kaupir hann nú samt og hegðar sér þar með líkt og aðrir íslenskir neytendur að sögn Guðmundar: „Viðhorf neytenda til íslenskra afurða er mjög jákvætt og þeir virðast líta á að þær séu flestar sambærilegar við lífrænt ræktaðar afurðir. Ef við erum með íslenska og erlenda tómata hlið við hlið þá hreyfast þeir útlendu ekki og skiptir þá engu þótt þeir séu verulega mikið ódýrari. Fólk vill íslenskt grænmeti og er tilbúið að borga talsvert meira fyrir það en innflutt.“

 

 Í fjölmiðlum þessar vikurnar er tekist á um mat. Í fyrsta lagi er heit umræða um matarverð þótt enn sem fyrr sé ekki pólitísk samstaða um að það sé hærra en þolmörk leyfa, þrátt fyrir að óumdeilt sé að það er hærra en í löndum ESB. Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar þegar virðisaukaskattskerfið var einfaldað og vörugjöld afnumin miðuðu að því að lækka matvælaverð, en ári eftir að þær aðgerðir voru boðaðar virðist enginn muna eftir þeim og maturinn enn jafn dýr og áður í huga þeirra sem stinga niður penna um matarmál. Meint verðsamráð Krónunnar og Bónuss og verðstýring í gegnum birgja eru mál dagsins auk deilunnar um sölu á áfengi í matvöruverslunum. Þessar umræður munu hins vegar til lengdar falla í skuggann af því sem dýpra liggur.

Í fyrsta lagi er hegðun íslenskra neytenda, líkt og Guðmundur lýsir, ekki verðtengd nema að litlu leyti. Hún miðast í æ meira mæli við gæði og þessi áhersla mun aukast eftir því sem fram líða stundir. Þar við bætast vistfræðileg rök sem mæla gegn flutningum á matvöru um langan veg. Í öðru lagi fer hlutdeild matarinnkaupa í efnahag heimilanna sífellt lækkandi, raunar hefur hún hríðlækkað síðasta áratuginn og er nú um 12%. Þetta er afleiðing kaupmáttaraukningar. Í þriðja lagi eru allir, þar á meðal Guðmundur Marteinsson, sammála um að 20. öldin með sínum sértæku aðgerðum til að bjarga stemmningunni hjá rísandi millistéttum Vesturlanda sé endanlega liðin. Matvælaverði verði ekki lengur haldið niðri með þrýstingi, niðurgreiðslum og stuðningi auk þess sem aukin eftirspurn rísandi efnahagsvelda, loftslagsbreytingar og aukin áhersla á að rækta kornmeti til orkunýtingar muni eyðileggja efnahagsgrundvöll hins lága matvælaverðs. Tollabreytingar muni með öðrum orðum ekki gera annað en laga stöðuna lítið eitt í bili þótt niðurfelling eða lækkun á tolla á landbúnaðarvörur sé óhjákvæmleg þegar til lengdar lætur, en um það eru allir sammála, líka bændur.

Í ljósi þessa er svolítið skrítið að sjá að ungliðaforingi Samfylkingar, Anna Pála Sverrisdóttur, spreytir sig nú á hinum pólitíska vettvangi með matarumræðunni (Fréttablaðið 6. nóv.). Röksemdir hennar hefðu getað hrokkið úr ritvél Jónasar Kristjánssonar árið 1980: Afnám tolla og frjáls innflutningur búvara mun gjörbreyta efnahag heimilanna og „frelsa“ bændur sem nú er „í höftum“ og „fangar miðstýringar“. Er nú ekki kominn tími til fyrir þessa deild stjórnmálanna að kynna sér aðeins hvað klukkan slær? Ég heyrði af bónda sem hafði lesið greinina og sagði: „Mér leið svo illa í höftunum að ég bara varð að panta mér nýja fimm milljóna dráttarvél.“ „