Beint í efni

Keppni um framtíðarfjósið

21.06.2016

Sænsku bændasamtökin hafa hrint af stað samkeppni um framtíðarfjósið en tilgangurinn er að fá sendar hugmyndir um hagkvæm fjós framtíðarinnar sem eru ódýr í framleiðslu en koma um leið til móts við kröfur um góða dýravelferð og gott vinnuumhverfi.

 

Reyndar er samkeppnin ekki einungis fyrir hönnuði fjósa heldur einnig fyrir allt annað búfé og eru flokkarnir eftirfarandi: smágrísaeldi, sláturgrísaeldi, holdakýr, mjólkurkýr, naut í eldi og fjárhús. Í hverjum „keppnisflokki“ er svo sérstök valnefnd sem sér um að greina innsendar hugmyndir og velja þá tillögu sem vinnur. Skemmtileg hugmynd en í verðlaun er endurgreiðsla á hönnunarkostnaði og eiga sænskir hönnuðir og bændur að senda tillögur þeirra inn til þarlendu bændasamtakanna fyrir 22. ágúst nk. Sigurtillagan verður svo kynnt opinberlega svo hver veit nema ný og áhugaverð fjóshönnun líti dagsins ljós í haust, sem gæti allt eins gagnast hér á landi/SS.