Beint í efni

Kaupa 10 kýr og borga á 5 árum

15.06.2012

Kúabændur í Zimbabwe, líkt og aðrir íbúar landsins, búa við afar erfið skilyrði og ekki bætir úr að aðgengi þeirra að lánsfé er nánast ekki til staðar. Nú stendur þeim hinsvegar til boða all sérstök lán til bústofnskaupa en það er sjóður sem heitir Cattle Ownership Trust sem fjármagnar lánin. Bændurnir fá grunnaðstoð við að kaupa 10 kýr og borga fyrir þær 35 dollara á mánuði eða um 4.500 íkr. í fimm ár og þá eiga þeir kýrnar skuldlausar! Í raun borga bændurnir ekki fyrir nema hluta af kúnum, enda er kaupverð hverrar kýr ekki nema um 25-30 þúsund miðað við það sem fram kemur hér að framan.

 

Á móti kemur að bændurnir fá ekki gripina alla í einu, heldur eru þeir haldnir á sérstökum búum sem sjá um þá. Þegar bóndi er búinn að greiða í heilt ár, fær hann fyrstu gripna afhenta og svo fær hann fleiri gripi eftir sem líður á fimm ára tímabilið.

 

Tilgangurinn með þessari aðferð er að sögn forsvarsmanna sjóðsins að undirbúa bændurnar betur undir það að vera með marga nautgripi og um leið að gera þeim auðvelt að eignast sína eigin gripi. Hægt er að velja um mismunandi upphæðir og þá um leið fjölda gripa, en borgi bóndi 165 dollara á mánuði fær hann 10 nautgripi afhenta í lok fyrsta ársins og 50 í allt að loknum fimm árum/SS.