Kaup á umframmjólk á yfirstandandi verðlagsári
22.09.2006
Til að tryggja viðunandi birgðastöðu mjólkurvara ákvað stjórn SAM fyrir upphaf þessa verðlagsárs, að greitt verði fullt afurðastöðvaverð fyrir allt að 3 milljónir lítra umframmjólkur á verðlagsárinu 2006/2007.
Það mjólkurmagn sem afurðastöðvar vilja kaupa með þessum hætti af mjólkurframleiðendum, á næsta verðlagsári, svarar til um 2,59% af úthlutuðu 116 millj. ltr. greiðslumarki verðlagsársins 2006/2007. Hver greiðslumarkshafi hefur því forgang að greiðslu fyrir umframmjólk sem samsvarar því hlutfalli af greiðslumarki hans, eða 2,59%. Það sem kann að vera ónotað að loknu slíku uppgjöri, deilist á þá framleiðendur sem leggja inn umframmjólk og þá í hlutfalli við greiðslumark þeirra.
Greiðslur til hvers framleiðanda umframmjólkur sem fellur innan ofangreinds marks, 2,59% af rétti hvers um sig, ættu að geta farið fram samhliða uppgjöri fyrir innvegna mjólk í hverjum mánuði. Endanlegt uppgjör og lokagreiðsla fyrir þá umframmjólk, sem óskað er eftir, getur ekki farið fram fyrr en verðlagsárið 2006/2007 er liðið og fullnaðaruppgjör Landbúnaðarstofnunar liggur fyrir. Heimild: www.sam.is