Kanadískir bændur fá meira fyrir mjólkina
14.01.2011
Mjólkurframleiðslunni í Kanada hefur frá árinu 1966 verið stýrt með kvótakerfi, ekki ósvipuðu því sem þekkist hér á landi. Einn aðalleikarinn á því sviði er Canadian Dairy Commission, kanadíska mjólkurnefndin (CDC). Nefndin sú ákveður lágmarksverð á mjólk með því að stýra uppkaupaverði (inngripsverð sem nefndin greiðir) á smjöri og undanrennudufti. Verð á drykkjarmjólk og rjóma er ákveðið í einstökum fylkjum landsins eftir mismunandi reglum. Í lok nóvember sl. ákvað CDC nýtt uppkaupsverð frá 1. febrúar 2011. Verð á undanrennudufti hækkar um 1,5% í 6,2712 CAD/kg, 730 ISK/kg og verð á smjöri hækkar um 1,26%, í 7,1922 CAD/kg, 837 ISK/kg. Til samanburðar má geta þess að gildandi heildsöluverð verðlagsnefndar búvöru hér á landi fyrir undanrennuduft er 626,92 kr/kg og 514,90 kr/kg pr. kg af smjöri. Gert er ráð fyrir að áðurnefndar hækkanir leiði til 1,5% hækkana á mjólkurverði til kanadískra kúabænda. Verður það þá 0,758 CAD/ltr eða sem nemur 88,22 ISK/ltr. Lágmarksverð mjólkur hér á landi hefur verið 71,13 kr/ltr síðan 1. nóvember 2008. Að sögn Randy Willamson, formanns CDC, er ástæða hækkunarinnar sú að kostnaður við mjólkurframleiðsluna hefur hækkað og afkoma bænda versnað sem því nemur.
Af þessu má ráða að fyrirkomulag verðlagningar á mjólk og mjólkurvörum er mjög svipuð hér á landi og í því ágæta landi Kanada. Helsti munurinn virðist þó vera sá, að þar vestra er greinilega búið að tryggja að lagaramminn sem greinin starfar eftir, haldi.