Beint í efni

Kálfar mega aldrei fá mjólk frá kúm í meðhöndlun

11.03.2017

Góð vísa er aldrei of oft kveðin og það á m.a. við um niðurstöður rannsóknar sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science nýverið. Rannsóknin gekk út að að skoða hvort mjólk, sem inniheldur lyfjaleifar frá kúm í júgurbólgumeðhöndlun, geti aukið hlutfall baktería sem eru ónæmar fyrir venjulegum sýklalyfjum. Í ljós kom að lyfjaleifamjólk getur einmitt haft þessi áhrif og fundu vísindamennirnir að kálfar sem fengu slíka mjólk höfðu hærra hlutfall af ónæmum bakteríum en þær fundust bæði í skít kálfanna og í öndunarvegi.

Í rannsókninni var sérstaklega skoðað hvort munur reyndist á kálfum á átta kúabúum sem fengu annars vegar lyfjaleifamjólk og hins vegar mjólk sem gerð var úr mjólkurdufti. Tekin voru sýni úr kálfunum eftir 20 daga, 42 daga og svo þegar þeir voru eins árs gamlir. Þá voru tekin sýni úr nærumhverfi kálfanna auk þess sem sýni voru tekin úr 5 kálfum á hverju búi við fæðingu ásamt mæðrum þeirra. Þegar sýnin voru rannsökuð kom í ljós, eins og hér að framan greinir, að þeir kálfar sem fengu lyfjaleifamjólk voru með fleiri bakteríur sem voru ónæmar fyrir venjulegum sýklalyfjum en hinir kálfarnir.

Vísindamennirnir fundu jafnframt að fjöldi slíkra baktería jókst með aldri fyrstu 6 vikurnar í báðum hópum, en að þeim fækkaði svo á ný þegar sýni var tekið við eins árs aldur kálfanna og það var óháð því hvaða mjólk þeir fengu. Þá kom í ljós að ekki var alltaf samhengi á milli þeirra baktería sem fundust í kálfum við fæðingu og mæðrum þeirra og var meira samhengi á milli þess hvaða bakteríur fundust í kálfunum og þess umhverfis sem þeir voru aldir í.

Framangreind rannsókn gefur enn á ný tilefni til þess að minna á að lyfjaleifamjólk eigi aldrei að nota sem fóður og umsvifalaust að hella niður/SS.