Beint í efni

Kærðir fyrir að senda kýr í sláturhús!

27.10.2011

Í Bandaríkjunum gilda svolítið aðrar reglur en í mörgum öðrum vestrænum þjóðum. Nú hefur þó líklega tekið steininn úr vitleysunni þar vestra. Þegar efnahagsástandið var sem verst fyrir þremur árum drógu margir neytendur saman seglin og keyptu minna af vörum. Þetta leiddi til þess að offramleiðsla varð á mjólk og neyddust bændur í Bandaríkjunum því til þess að draga úr mjólkurframleiðslunni. Gerðu bændurnir það með því að senda kýr í sláturhús, en nú hafa þessir sömu bændur verið dregnir fyrir dómstóla vegna þessa!
 
Samkvæmt kærunni gerðu bændurnir þetta að höfðu ólöglegu samráði, til þess að koma í veg fyrir að verð á mjólk myndi falla niður úr öllu valdi. Kærandinn, sem eru dýraverndarsamtökin Compassion Over Killing („samúð frekar en slátrun“), kærir bændurna alla fyrir að fella 500 þúsund kýr en samtök þeirra, National Milk Producers, hefur að sjálfsögðu hafnað því að hafa gert nokkuð sem er óeðlilegt og að bændur landsins hafi að fullu unnið innan ramma bandarískra laga. Dóms í málinu er að vænta á næsta ári/SS.