Júgurbólgutilfellið kostar mikið!
29.06.2012
Miðað við niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem birtist í Stiftelsen Lantbruksforskning, má ætla að tap vegna hvers júgurbólgutilfellis nemi u.þ.b. 55 þúsund krónum, sem að stórum hluta má skýra með afurðatapi. Rannsóknin, sem fram fór í Svíþjóð, leiddi í ljós að afurðatap í kjölfar hvers júgurbólgutilfellis nemur 8-10% að jafnaði hjá eldri kúm komi tilfellið upp fyrstu sex vikurnar eftir burð.
Upphæðin er umreiknuð miðað við íslenskt afurðastöðvaverð og meðalnyt hér á landi, en sænsku niðurstöðurnar sýndu að um 80% kostnaðarins er afurðatapið sjálft og um 20% annar kostnaður s.s. vegna dýralæknis, lyfja, vinnutaps ofl.
Í ljós kom jafnframt að afurðatap hjá kvígum er hlutfallslega meira en hjá eldri kúm, svo enn brýnna er að koma í veg fyrir júgurbólgutilfelli hjá þeim. Heildarniðurstöður rannsóknarinnar sýna að með því að leggja aukalega vinnu í það að koma í veg fyrir að kýr veikist af júgurbólgu, eykst framlegð búanna. Hinir sænsku kúabændur, sem rannsóknin byggir á, voru með öðrum orðum á góðum launum við það að verja aukalegum tíma í fjósum sínum við fyrirbyggjandi aðgerðir/SS.