Beint í efni

Júgurbólgan írskum bændum dýr

26.07.2012

Hér á naut.is hefur nokkuð verið fjallað um kostnað kúabænda vegna júgurbólgu, en hún er án efa sá framleiðslusjúkdómur sem veldur bændum mestu tjóni. Í grein sem birtist í júlíhefti tímaritsins Journal of Dairy Science, eins fremsta tímarits um rannsóknir í nautgriparækt og mjólkurframleiðslu, gera höfundar tilraun til að meta fjárhagsleg áhrif júgurbólgunnar á afkomu írskra kúabænda. Helstu þættir sem þar hafa áhrif eru minni nyt, förgun á kúm og uppeldi á nýjum gripum, kostnaður vegna sýnatöku og sýklagreiningar, lyfjakaup, dýralæknakostnaður, mjólk sem þarf að henda og verðfelling mjólkur.  

 

Býlin voru flokkuð í fimm flokka eftir frumutölu í tankmjólk, ≤100,000, 100,001–200,000, 200,001–300,000, 300,001–400,000, og >400,000 frumur/ml. Flokkurinn ≤100,000 var nýttur sem viðmið. Sé miðað við 40 ha býli (mun vera algeng bústærð á Írlandi þar sem mjólkurframleiðslan byggir nær alfarið á beit) voru tekjur af mjólkursölu hjá búum í flokknum með hæstu frumtöluna 6,9% lægri en á þeim búum þar sem frumutalan var lægst. Munur á heildar búgreinatekjum var þó minni, þær voru 1,6% lægri á búum með háa frumutölu, samanborið við þau bú sem best stóðu. Munurinn skýrist af meiri endurnýjun og sölu sláturgripa frá búum með háa frumutölu. Heildar kostnaður við búreksturinn var 10% hærri á búum með háa frumutölu heldur en lága. Þar koma inn þeir kostnaðarliðir sem áður eru taldir, lyf og dýralæknir, vinna við meðferð og endurnýjun á bústofni. Þannig var því hagnaður af búrekstrinum 62% lægri á búum með háa frumutölu, heldur en á þeim búum þar sem júgurheilbrigðið var gott. 

 

Í þessum efnum er því augljóslega eftir mjög miklu að slægjast í átt að betri afkomu. Niðurstöðuna hyggjast greinarhöfundar nota til að þróa verkfæri sem gerir bændum kleyft að meta kostnað við júgurbólgu á búunum og meta ávinning af lækkaðri tíðni hennar, ásamt því að innleiða skilvirkar aðferðir í baráttunni við þennan vágest./BHB  

 

40 ha kúabú Frumutala ≤100,000 Frumutala >400,000 Mismunur
Tekjur af mjólkursölu, € 148.843 138.573 -6,9%
Heildar búgreinatekjur, € 192.147 189.091 -1,6%
Heildar framleiðslukostnaður, € 161.085 177.343 10,1%
Hagnaður, € 31.062 11.748 -62,2%