Beint í efni

Journal of Dairy Science í 100 ár

05.12.2017

Tímaritið Journal of Dairy Science fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir en blaðið ber höfuð og herðar yfir önnur fagtímarit í nautgriparækt. Áhugafólk um nautgriparækt um allan heim eiga þessu magnaða tímariti margt að þakka enda hafa verið þar birtar svotil allar þær rannsóknaniðurstöður sem hafa haft áhrif á þróun nautgriparæktar heimsins. Við höfum einnig hér á naut.is margoft vitnað í áhugaverðar rannsóknir og rannsóknaniðurstöður sem birtar hafa verið í tímaritinu.

Fyrsta tölublaðið kom út árið 1917 og síðan hafa fleiri en 30 þúsund greinar birtst í ritinu og rúmlega 200 þúsund blaðsíður af fagefni komið út hjá þessu eina tímariti. Það sem er sérstakt við tímaritið Journal of Dairy Science er að það er, reyndar eins og mörg önnur fagrit í dag, ritrýnt þ.e. það birtist ekkert í blaðinu sem ekki hefur farið fyrir fagfólk sem á að tryggja að efnið sem birtist er gæðaefni sem hægt er að treysta á.

Þeir sem kunna að hafa nánari áhuga á þessu mikilvæga fagtímariti í nautgriparækt geta gerst áskrifendur að útdráttum úr blaðinu með því að skrá sig á heimasíðuna sem hér er að finna. Þá er að sjálfsögðu hægt að gerast áskrifandi að þessu blaði einnig, en það kostar auðvitað og er hægt að gera með því að smella hér/SS.