
Jón Bjarnason fær lyklavöldin í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu
10.05.2009
Jón Bjarnason, efsti maður á lista Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvestur-kjördæmi, er nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tók við lyklavöldum í ráðuneytinu á Skúlagötu í kvöld úr hendi Steingríms J. Sigfússonar fráfarandi ráðherra sem nú einbeitir sér að fjármálaráðuneytinu. Jón Bjarnason sagði við tilefnið ætla að gera allt sitt til þess að standa undir þeim væntingum sem þjóðin ber til þessara mikilvægu atvinnuvega á erfiðum tímum.
Jón Bjarnason er 65 ára gamall og búfræðikandidat frá Landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi. Hann kenndi við Bændaskólann á Hvanneyri á árunum 1970-1974, var bóndi í Bjarnarhöfn árin 1971-1982. Lengst af var Jón skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal eða frá árinu 1981 til 1999 þegar hann gerðist þingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð. Hann hefur setið í ýmsum nefndum á vegum þingsins, s.s. í fjárlaganefnd, samgöngunefnd, landbúnaðarnefnd, sjávarútvegsnefnd, viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd.
Ný ríkisstjórn mun standa vörð um innlendan landbúnað
Það eru ærin verkefni sem bíða nýrrar ríksstjórnar en í stjórnarsáttmála er tekið fram að ríkisstjórnin muni standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar jafnframt því að standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Stjórnin ætlar að efla íslenskan landbúnað með áherslu á fullvinnslu afurða og markaðssókn innanlands sem utan. Stuðningskerfi landbúnaðarins verður endurskoðað með áherslu á að auðvelda nýliðun. Svigrúm bænda til heimaframleiðslu, vöruþróunar og heimasölu með upprunamerkingum verður aukið og nýtt til sóknar í ferðaþjónustu. Átak verður gert í lífrænni ræktun og bændum tryggður aðlögunarstuðningur skipti þeir úr hefðbundinni ræktun yfir í lífræna, segir í stjórnarsáttmálanum.
Steingrímur og Jón slógu á létta strengi þegar sá síðarnefndi tók við lyklunum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.