Beint í efni

Jökla rjómalíkjör kominn í sölu

31.05.2021

Íslenski rjómalíkjörinn JÖKLA er kominn í sölu í nokkrum verslunum Vínbúðarinnar, ÁTVR. Það er Pétur Pétursson mjólkurfræðingur sem á veg og vanda af þróun og framleiðslu Jöklu en drykkurinn er unninn úr íslenskri mjólk.

Hugmyndin kviknaði á Ítalíu

Í samtali við Iðuna fyrr á þessu ári sagði Pétur að hugmyndin að framleiðslunni hafi kviknað á ferðalagi um Ítalíu þegar hann borðaði hjá ítölskum bónda sem framleiddi sinn eigin mjólkurlíkjör. „Hann kom bara með könnuna á borðið“ sagði Pétur sem fannst hugmyndin heillandi. Í kjölfarið fór Pétur að gera tilraunir og þar kom nám hans sem mjólkurfræðingur að góðum notum. Það sem kemur á óvart er að vínandinn í Jöklu er unnin úr ostamysu og engin þykkingarefni eru notuð við framleiðsluna. „Því má með sanni segja að hér verði mjólk að víni“ segir Pétur og hlær.

Pétur tók þátt í viðskiptahraðlinum Til Sjávar og sveita og segir hvatninguna þar skipta gríðarlegu máli í nýsköpun. Þarna mætti hópur fólks með nýjar hugmyndir, allir jákvæðir og allir hvetjandi. Það gefur manni kraftinn til að halda áfram segir hann.

Þetta ferli er búið að vera langt og strangt og því er mikil hamingja með að sjá afurðina fara loksins á markað.

Í fregn frá Jöklavin ehf., sem framleiðir Jöklu, verður rjómalíkjörinn í boði í verslunum Vínbúðarinnar í Mosfellsbæ, Heiðrúnu, á Dalvegi og í Kringlunni. Upplýsingar um birgðastöðu fyrir hverja verslun má finna hér: https://www.vinbudin.is/heim/vorur/stoek-vara.aspx/…
Landssamband kúabænda óskar Pétri Péturssyni og öllu hans samverkafólki til hamingju með fyrsta alíslenska rjómalíkjörinn!