Beint í efni

Jersey – smáar en hagkvæmar kýr

06.11.2010

Jersey kúakynið er með þekktari kúakynjum heimsins. Það er fremur smávaxið og fíngert, en er með þann sérstæða eiginleika að mjólk kúnna er óvenju fitu- og próteinrík. Þessi eiginleiki gerir kynið sérstaklega hagkvæmt til mjólkurframleiðslu. Jersey gripir eru til um allan heim, þykja afar fallegir gripir og eru frekar harðgerðir.

 

Uppruni
Jersey nautgripir koma  upphaflega frá bresku eyjunni Jersey, skammt norðan við Normandí í Frakklandi. Þrátt fyrir

töluverðar rannsóknir á uppruna kynsins er ekki vita með vissu hvaðan kýrnar komu til Jersey á sínum tíma, en þó er líklegast að nautgripirnir hafi komið frá strandhéruðum Frakklands. Þegar litið er til erfðaþátta Jersey er talið líklegt að forfaðir gripanna hafi komið frá Asíu frá hinum tömdu nautgripakynjum sem notuð voru á steinöld fyrir um 10 þúsund árum síðan.

 

Sagan
Til eru heimildir um nautgripaflutninga frá eynni Jersey til meginlands Bretlands allt frá 1741, en á þeim tíma voru nautgripirnir kallaðir Alderneys (líklega nefndir eftir samnefndri eyju sem siglingaleiðin hefur væntanlega legið um). Nafnið Jersey festist þó fljótlega við þá og blómaskeið útbreiðslu Jersey gripa var á tímabilinu 1860 og fram til fyrri heimstyrjaldarinnar. Þá voru þúsundir Jersey gripa fluttir um allan heim s.s. til Bandaríkjanna, Kanada, Suður-Afríku og Nýja-Sjálands. Talið er að nokkru fyrir þetta blómaskeið hafi stórar hjarðir af Jersey gripum verið fluttar til Ástralíu. Frá þessum tíma hefur Jersey kyninu fjölgað jafnt og þétt og er í dag með útbreiddustu kúakynjum heimsins.

 

Útlit
Jersey gripir eru leirljósir að lit en finnast allt frá því að vera nánast ljós gráir yfir í dumb-rauð-kolóttir. Jersey gripir geta einnig verið með hvíta eða mjög ljósa flekki. All sýnilegt einkenni hreinræktaðra Jersey gripa er ljós gjörð í og við granir og oft í kringum augun, sem eru óvenju stór. Þrátt fyrir smæð sína, um 400-450 kg lífþunga, eru Jersey kýrnar með sterka beinabyggingu og eru t.a.m. með sterkar klaufir og verjast vel t.d. klaufsjúkdómum.

 

Eiginleikar
Jersey kýr þykja fremur harðgerðar og sækja t.d. beit af krafti. Þær hafa mjög góða endingu og yfirleitt eru burðarvandamál ekki til staðar. Eins og áður segir er fituinnihald mjólkurinnar óvenju hátt eða um 6% og próteinið er einnig hátt eða um 4%. Afurðir Jersey kúa eru ekki sérlega miklar eða um 6.500 kg / árskúna, en ef miðað er við orkuleiðrétta mjólk reiknast meðalnytin til þess að vera um 8.000 kg / árskúna.

 

 

 

Ókostir kynsins felast etv. fyrst og fremst í því að kjöt af Jersey þykir ekki standa uppúr í gæðum og þá er vöxtur nauta af Jersey kyni hægur. Geðslag Jersey gripa þykir einstaklega gott.

 

Útbreiðsla
Í dag má finna Jersey um allan heim, þó flesta gripi sé að finna í Ástralíu, Kanada, Danmörku, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Zimbabve og Bretlandseyjum. Á eyjunni Jersey eru einungis um 6.000 kýr, en bændum á eynni er óheimilt að kynbæta stofninn með aðkeyptu erfðaefni.

 

 

Helstu atriðin
– Fíngert en harðgert kyn
– Framleiða óvenju fitu- og próteinríka mjólk
– Þykja mjög hagkvæmar mjólkurkýr
– Jersey nautakjötið er í slöku meðallagi

 

Samantektin um Jersey kúakynið er hluti af kynningum naut.is á hinum fjölbreyttu kúakynjum heimsins sem munu birtast og hafa verið að birtast lesendum naut.is. Samantektin byggir að mestu á upplýsingum af veraldarvefnum, mest frá afar áhugaverðri heimasíðu um ýmis kúakyn www.thedairysite.com.