Beint í efni

Jarlsberg osturinn er eign TINE

19.01.2017

Við sögðum frá því í mars á síðasta ári að norsku afurðafélögin TINE og Synnøve Finden væru komin í hár saman vegna deilu um hver mætti fá að framleiða og selja hinn þekkta norska Jarlsberg ost, en osturinn er í dag heimsþekktur og eitt af aðalsmerkjum norskra kúabænda. Forsvarsmenn Synnøve Finden vildu meina að Jarlsberg væri ekki það sérstakur hefði verið framleiddur í Noregi í 150 ár áður en TINE tók upp nafnið á sína osta. Synnøve Finden hefur því undanfarin ár merkt sína osta sem „Jarlsberg tegund“. Félögin fóru svo með nafnamálið fyrir dómstóla, til þess að fá úr því skorið hvað mætti og mætti ekki.

Synnøve Finden tapaði málinu í héraði og áfrýjaði fyrirtækið niðurstöðunni til æðra dómstigs. Nú hefur svo fallið dómur í málinu á ný og enn hefur TINE unnið sigur. TINE, sem er samvinnufélag norskra kúabænda, er því eini aðilinn sem má hér eftir nota orðið Jarlsberg um osta/SS.