Beint í efni

Jarðræktarstyrkir og landgreiðslur

23.08.2023

Umsóknarfrestur rennur út 2. október

Rafrænum umsóknum fyrir jarðræktarstyrki og landgreiðslur vegna framkvæmda á yfirstandandi ári skal skilað eigi síðar en mánudaginn 2. október nk. í gegnum Afurð (www.afurd.is). Árleg skýrsla um ræktun 2023 í skýrsluhaldskerfinu Jörð þarf að liggja fyrir svo hægt sé að senda inn umsókn. 

Jarðræktarstyrkir 

Styrkhæf ræktun er ræktun grass, korntegunda til dýrafóðurs og manneldis, ræktun olíujurta, þar með talin ræktun jurta til framleiðslu á lífdísil, enda sé hratið nýtt til fóðurs og ræktun grænfóðurs til beitar og uppskeru á því ári sem uppskorið er. Beit búpenings telst vera uppskera og nýting kornhálms og annarra jurta til uppræktunar jarðvegs í útiræktun grænmetis telst styrkhæf. Ræktun vetraryrkja sem sáð er um mitt sumar og endurræktun túna er tekin út á ræktunarári.  

Þau sem stofnuðu umsókn síðast liðinn júní vegna fyrirframgreiðslu í kornrækt geta nú farið inn í umsóknina í gegnum Afurð og lokið skráningu hennar í samræmi við framkvæmdir á yfirstandandi ári. Fyrirframgreiðsla styrks dregst frá þeirri upphæð sem greidd verður í desember nk. 

Landgreiðslur 

Framlögum til landgreiðslna skal ráðstafa á ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar og framleiðanda er heimilt að nýta. Þegar uppskorinn er hluti lands, sem sækja á um styrk út á, skal skrá sérstaklega þann fjölda hektara sem er uppskorinn. 

Umsóknir skulu berast á: https://afurd.bondi.is/