Beint í efni

Jarðræktarstyrkir, landgreiðslur og tjónabætur greiddar út

20.12.2022

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki, landgreiðslur og tjónabætur vegna tjóns af völdum álfta og gæsa á ræktunarlandi bænda vegna ársins 2022. Styrkir vegna jarðræktar nema alls 399.908.095 kr. og 398.928.570 vegna landgreiðslustyrkja, alls 798.833.665 kr.

Landgreiðslur voru veittar vegna 82.218,9 hektara (ha) 36.980 spildna. Einingarverð landgreiðslna er 4.852 kr. /ha (einingarverð 2021 var 4.718 kr. pr. ha.).

Jarðræktarstyrkir voru veittir vegna 10.802,5 ha sem skiptust niður á 4.659 ræktunarspildur. Einingarverð jarðræktarstuðnings í ár 38.584 kr./ha (einingarverð 2021 var 34.687 kr./ha.) á 10.364,6 ha að teknu tilliti til skerðingarreglna. Sérstakt álag vegna tjóns vegna fugla reiknast 47,7 ha hjá 11 bændum.

Útreikningar um landstærðir og ræktun byggjast á upplýsingum úr jarðræktarskýrsluhaldi á vefsíðunni Jörð.is sem byggir á landupplýsingagrunni túnkorta. Matvælaráðuneytið sér um úttektir í samræmi við reglugerð um almennan stuðning í landbúnaði nr. 430/2021.

Framlög vegna landgreiðslna taka mið af heildarfjölda hektara (ha.) sem sótt er um og deilast jafnt út á þá ha. sem sótt er um stuðning fyrir. Fullur jarðræktarstyrkur er veittur fyrir ræktun upp að 30 ha. en hlutfallast skv. töflu í 7. gr. reglugerðar nr. 430/2021.

Umsækjendur hafa fengið rafrænt bréf með upplýsingum um úthlutun jarðræktar- og landgreiðslustyrkja, sem finna má inn í jarðabók Afurðar sem og inn í stafrænu pósthólfi stjórnvalda á Ísland.is.