Beint í efni

Japanskar konur í hættu á beinþynningu

21.03.2017

Aukin hætta er á því að tíðni beinþynningar aukist í Japan, en sem kunnugt er stafar beinþynning af of lítilli neyslu á kalki og D-vítamíni, eitthvað sem mjólk og mjólkurvörur innihalda mikið af. Nýlega birti alþjóðlegi heilsufarsháskólinn í Tokyo niðurstöður heilbrigðiskönnunar sem gerð var árið 2013 en í þeirri könnun kom í ljós að konur í Japan fá að jafnaði ekki nema 480 mg af kalki á dag en hér á landi mælir landlæknisembættið með því að konur, 18 ára og eldri, neyti daglega 800 mg af kalki.

Í sömu rannsókn kom í ljós að verulega breyttar neysluvenjur síðust tæplega 2ja áratuga skýri hvers vegna konur í Japan fái of lítið af kalki og D-vítamíni. Mikil áhersla hefur verið lögð á að draga úr offitu og sjúkdómum tengdum offitu og hafa þessar áherslur valdið verulega breyttu matarræði og virðist sem að mjólkurvöruneysla hafi dregist um of saman hjá þessum hópi neytenda. Nú stendur því til að efla kynningu á mikilvægi neyslu mjólkur og mjólkurvara svo draga megi úr líkum á beinþynningu þegar fram líða stundir/SS.