Beint í efni

Japan hækkar innflutningstoll á nautakjöt

09.08.2017

Það sem af er þessu ári hefur innflutningur á nautakjöti til Japan aukist mikið og nú hefur japanska ríkisstjórnin ákveðið að setja á tímabundinn aukatoll á allt innflutt nautakjöt. Þetta er hægt innan ramma WTO samningsins og var tollurinn hækkaður í 50% nú um mánaðarmótin. Tilgangurinn með þessari ákvörðun er auðvitað að standa vörð um japanska nautakjötsframleiðslu.

Þessi ákvörðun ríkisstjórnar Japan kemur einungis niður á þeim löndum sem ekki eru með tvíhliða samninga við landið og þar á meðal eru Bandaríkin en ljóst er að ákvörðunin um tollahækkunina mun koma verulega niður á útflutningi á nautakjöti frá Bandaríkjunum til Japan. Af þeim sökum sendi Sonny Perdue, landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna, frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar ákvörðunin og segir fyrirséð að hún muni valda verðhækkunum í Japan og verða þarlendum neytendum ekki til góðs. Áhugaverð yfirlýsing frá ráðherra í Bandaríkjunum sem virðist vera afar umhugað um japanska neytendur. Reyndar er ekki hægt að útiloka að ástæða yfirlýsingarinnar byggi frekar á þeirri staðreynd að japanski markaðurinn er stærsti viðtakandi í heimi á bandarísku nautakjöti og ef þessi markaður dregst saman þá muni það valda kúabændum í Bandaríkjunum tjóni/SS.