Beint í efni

Jákvæðar horfur hjá breskum nautabændum

05.05.2011

Eftir frekar mögur ár í kjölfar kreppunnar virðist nú loks hafa rofað til hjá breskum nautabændum, en verð á algengum flokki ung-uxa (R4L) hefur nú verið yfir 300 penníum í 3 vikur eða um 550 kr/kg. Ástæða þess að bændur gleðjast yfir þessum tíðindum er að verðið er afar breytilegt á mörkuðum í Stóra-Bretlandi en þróast þó með svipuðum hætti ár hvert. Verðið nú er 9% hærra en á sama tíma í fyrra, sem bendir til verulega bættrar afkomu í greininni á næstu misserum.

 

Rétt eins og hér á landi hefur nautakjötsframleiðslan í Bretlandi fengið á sig verulegar kostnaðarhækkanir í formi hækkandi aðfanga. Þó má geta þess að aðfangakaup vegna nautaeldis í Bretlandi eru verulega mikið minni en hér á landi vegna betri möguleika breskra bænda á því að beita hjörðum sínum. Eins og verðið er nú í Bretlandi gera þarlendir ráðunautar ráð fyrir því að bændur með naut í eldi séu ekki lengur að tapa fjármunum við eldið og standi í stað.

 

DairyCo spáir því að nautakjötsverðið eigi eftir að vera að lágmarki 300 penní/kg næstu 18 mánuðina og að líkindum muni verðið hækka. Á Íslandi er verðið fyrir algengustu flokka ungnautakjöts áþekkt þessu verði í Bretlandi en framleiðslukostnaður hér á landi er þó klárlega verulega hærri en þar í landi og þar með afkoman hér mun slakari m.v. sömu sláturverð/SS.