Beint í efni

Jafnvægi á mjólkurvörumarkaðinum

04.10.2010

Heimsmarkaðurinn með mjólkurvörur er í góðu jafnvægi um þessar mundir, þrátt fyrir að nú sé aðal framleiðslutími stóru útflutningslandanna sem hefur oft leitt til verðlækkunar undanfarin ár. Nú virðist sem háframleiðslutími Nýjálendinga ekki hafa mikil áhrif á heimsmarkaðinn, etv. þar sem kúabændur þar horfa orðið meira á Asíumarkaðinn sem sinn aðal markað.

 

Hvað varðar einstakar vörur á markaðinum þá er verð fyrir smjör afar gott nú enda eru smjörbirgðirnar í

heiminum mjög lágar. Eins og naut.is hefur áður greint frá þá er þónokkur framleiðsluaukning í kortunum bæði í Nýja-Sjálandi og einnig í Ástralíu. Þetta getur þó breyst, enda er mjólkurframleiðsla í báðum löndum afar mikið háð veðri með tilheyrandi óvissu.

 

Í nýlegu yfirliti VFL í Danmörku kemur fram að fleiri landsvæði hafa boðað framleiðsluaukningu s.s. lönd í Suður-Ameríku og Indland. Öll lönd í þessum flokki eru þó ekki talin hafa áhrif á heimsmarkaðinn, þar sem stígandi eftirspurn eftir mjólkurvörum á heimamarkaði mun að líkindum taka við allri framleiðsluaukningu landanna.

 

Uppboðsmarkaðir tryggðir fram á vor 2011

Í Nýja-Sjálandi er haldinn mánaðarlega uppboðsmarkaður sem varðar leiðina fyrir heimsmarkaðsverð mjólkurvara. Markaðurinn heitir Global Dairy Trade og er starfræktur af Fonterra. Á þeim markaði hefur verið stöðugt verð undanfarið og afhendingarsamningar ná allt fram á vor 2011 sem bendir til þess að kaupendur telja ekki líkur á verðlækkunum á næstunni.