Beint í efni

Jafn mikil sala á fitu og próteini!

16.04.2013

Samkvæmt söluyfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem kom út í gær, hafa þau tíðindi gerst að sala á fitugrunni er orðin jafn mikil og sala á próteingrunni. Slík staða hefur ekki verið uppi í áratugi, a.m.k. ekki frá því að farið var að gera söluna upp bæði á fitu- og próteingrunni upp úr 1990. Samkvæmt yfirliti SAM er próteinsala sl. 12 mánuði (apríl 2012-mars 2013) 115.399.620 lítrar (+1,1%) en fitusalan á sama tímabili er 115.328.296 lítrar (+3%). Munurinn er einungis 0,06%, sem getur ekki talist tölfræðilega marktækt.

 

Eins og áður segir hefur próteinsala verið að jafnaði meiri en fitusalan í tæplega aldarfjórðung hið minnsta. Á tímabilinu hefur sá munur oft verið talsverður og mestur var hann verðlagsárið 1.9.2004-31.8.2005 alls 12,2 milljónir lítra, próteininu í hag. Undanfarin ár hefur fitusalan hins vegar sótt mjög í sig veðrið af ýmsum ástæðum, sem m.a. hafa verið tíundaðar hér./BHB