Beint í efni

Íþróttakennarafélag Íslands klæðist nýjum íþróttagöllum

26.11.2011

Í vikunni var skrifað undir þriggja ára samstarfssamning Fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins og Íþróttakennarafélags Íslands (ÍKFÍ), m.a. um mikilvægi þess að minna  grunnskólabörn og foreldra þeirra á mikilvægi holls mataræðis, reglulegrar hreyfingar, uppbyggilegra æfinga og hvers kyns íþrótta sem eru nauðsynlegar öllum. Er þessi samningur gerður í framhaldi af áratuga löngu samstarfi þessara aðila. Auk þess hefur Skólhreysti náð fótfestu sem íþróttakeppni grunnskóla og er þegar orðin stór liður í leikfimi og þjálfun í grunnskólunum, en íslenskum mjólkuriðnaður hefur stutt vel við bakið á skipuleggjendum þessarar keppni og gert þeim mögulegt að halda hana árlega.

 

Í tilefni af undirritun samstarfssamningsins, sem Guðni Ágústsson, formaður Fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins, og Guðrún V. Ásgeirsdóttir, varaformaður ÍKFÍ skrifuðu undir, verður öllum starfandi íþróttakennurum úthlutað íþróttagöllum sem merktir eru einu helsta slagorði okkar, “Mjólk er góð”.

 

Að sögn Guðrúnar V. Ásgeirsdóttur varaformanns ÍKFÍ sveiflast fjöldi starfandi íþróttakennara  nokkuð á milli ára. Samkvæmt félagatali eru nú um 800 íþróttakennarar skráðir í félagið í dag en um 50 íþróttakennarar útskrifast á ári hverju. Starfssemi félagsins er mjög mikilvæg fyrir þessa stétt og lýtur það meðal annars að endurmenntun og ýmsum sameiginlegum hagsmunum. Íþróttakennarar eru fyrirmynd yfir fimmtíu þúsund grunnskólabarna um allt land en margir þeirra eru afreksfólk í íþróttum/SS.