
Íþróttadómar FEIF-landa í WorldFeng
16.03.2010
Íþróttadómar allra FEIF-landa (alþjóðasamtök eigenda íslenskra hesta) er nú að finna í WorldFeng. Um er að ræða íþróttadóma frá öllum aðildarlöndum FEIF, sem eru 18 talsins. Upplýsingar um íþróttadóma verða lesnir inn vikulega í WorldFeng. Á ráðstefnu FEIF, sem haldin var í Danmörku í síðasta mánuði, kom fram að innlestur dómsniðurstaðna frá löndum FEIF verði eitt af forgangsverkefnum á þessu ári hvað varðar þróun á WorldFeng.
Marko Mazeland, íþróttaleiðtogi FEIF, og Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs, fóru á ráðstefnunni yfir það hvaða næstu skref væru möguleg til að koma þessu í framkvæmd. Að sögn Jóns Baldurs þá er þetta eitt af markmiðum viðaukasamnings Bændasamtaka Íslands og FEIF, sem gerður var á síðasta ári. „Undanfarið hefur markvisst verið unnið að því að styrkja WorldFeng sem ættbókarkerfi fyrir aðildarlönd FEIF. Þegar hefur markmiðinu um að opna WorldFeng fyrir alla félaga í FEIF verið náð. Með innlestri íþróttadóma FEIF má því segja að öllum helstu stefnumálum í fyrrnefndum viðaukasamningi verði náð.“
Frá áramótum hafa 5.516 áskrifendur frá 22 löndum nýtt sér aðgang sinn að WorldFeng. Í dag eru 335.820 hross skráð í gagnagrunn WorldFeng og þar af eru 204.990 lifandi. Af þeim eru 45% þeirra staðsett á Íslandi, um 14% í Danmörku, 11,3% í Svíþjóð, 11,2% í Þýskalandi, 5,4% í Noregi o.s.frv. Jón Baldur segir að Bændasamtökin vinni nú að því með Þjóðverjum að finna leiðir til að hraða skráningu allra íslenskra hrossa í Þýskalandi inn í WorldFeng. „Önnur lönd eru að mestu búin að skrá öll íslensk hross. Aðstæður í Þýskalandi eru flóknari m.a. vegna fjölda hrossaræktarsambanda, en allt mjakast það í rétta átt í góðu samstarfi við IPZV, Íslandshestafélagið í Þýskalandi.“